Gagnrýni / Ásgeir H Ingólfsson

Úr Akureyrarhelvíti í MR-himnaríki

Ásgeir H Ingólfsson

Ásgeir H er skáld, blaðamaður og bókmenntafræðingur og er búsettur í Prag í Tékklandi.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:
Sjá nánar hér

Bók til umfjöllunar

Titill Ljónið
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 410

Við erum stödd í portinu á bak við Menntaskólann í Reykjavík. Þar rennur forneskjan saman við nútímann, sem er einmitt eitt helsta höfundareinkenni málarans Þrándar Þórarinssonar, sem teiknar kápumynd Ljónsins. Þetta er fyrsta bókin í yfirlýstum þríleik Hildar Knútsdóttur – og það er rétt að hafa innbyggðan fyrirvara við allt í þessum dómi, kannski er eitthvað af því sem maður saknar í þessari bók að finna í þeim næstu.

Hildur KnútsdóttirLjónið lofar nógu góðu til að gagnrýnandi bíður spenntur eftir næstu bók í hinum boðaða þríleik. MYND: GASSI

Þetta er samtímasaga um unglingsstelpur í Reykjavík, sem allar eru nýbyrjaðar í MR. Kría er nýflutt frá Akureyri eftir að hafa flækst í dularfulla atburði þar og mætir uppburðarlítil í fyrsta tímann, niðurbrotin unglingsstelpa eftir áralangt einelti, eða kannski frekar áralanga útilokun. Hún er hins vegar snögg að finna sér vini í borginni, rektorsdóttirin Elísabet verður nánast samstundis hennar besta vinkona og æskuvinkonur hennar, Úlfhildur og Snæfríður, fylgja fljótlega í kjölfarið.

Þrátt fyrir tímabundin vinslit tveggja vinkvenna hennar út af strák þá reynist lífið í MR heilt yfir dans á rósum, ef hinn dularfulli Davíð væri ekki að flækja málin. Kríu virðist að vísu framan af ekkert gruna en það er frekar augljóst flestum lesendum að þessi gutti er ekki af þessum heimi – hvort hann kemur úr heimum skugga eða ljóss er hins vegar öllu óljósara.

Sannfærandi mynd af lífi unglinga

Hér birtist okkur um margt ansi sannfærandi mynd af lífi unglinga í Reykjavík nútímans, veruleiki samfélagsmiðla er alltumlykjandi án þess að vera yfirdrifinn og það er líka styrkleiki sögunnar að gerast yfir heilt skólaár, þar sem maður fær dægursveifluna sem því fylgir, ómögulegir nemendur eftir jólafrí nýbúnir að snúa sólarhringnum við og þetta eilífa skítaveður sem íslensku árin byrja ósjaldan á, en líka tilhlökkunina sem fylgir haustinu og vorinu, af mismunandi ástæðum. #metoo byltingin fær sitt pláss hér, án þess að gegna neinu lykilhlutverki, maður fær einfaldlega nokkuð sannfærandi mynd af því hvernig sú orðræða sem henni fylgdi er hluti af lífi menntaskólakrakka í dag.

Fullorðinn lesandi heggur vel að merkja eftir því að Kría byrjar í fjórða bekk – og heldur fyrst að hún hafi mögulega tekið fyrsta bekkinn fyrir norðan – en man svo að bæði er þetta MR, með sitt skrítna bekkjakerfi, og það er búið að stytta námið til stúdentsprófs um heilt ár, sem í tilfelli MR þýðir að þriðji bekkur hverfur. Maður hefur heyrt víða að þessari breytingu hafi fylgt óhóflegt heimanám og það er svo sannarlega tilfellið í Ljóninu, heimavinnan virðist hreinlega vera endalaus, álagið ómennskt.

Hins vegar kemur hvergi fram að þetta álag sé neitt slæmt, það virðast flestir furðusáttir við þennan veruleika – sem að vísu lýsir sér líka í því að aðeins ein þessara fjögurra vinkvenna virðist hafa eitthvert alvöru áhugamál, fyrir flesta víkur slíkt fljótt fyrir heimavinnufjallinu.

Annar þráður sem týnist örlítið er stéttaskiptingin. Amma Kríu, sem býr á neðri hæð hússins sem fjölskylda Kríu er nýflutt í, virðist mjög í nöp við fjölskyldu Elísabetar og mamma Kríu ræðir aðeins við hana um hvernig amma hennar hafi verið af fátækum ættum og í þá daga hafi ekki verið neitt sjálfgefið að krakkar léku sér saman þvert á stéttir. Hins vegar er ekki haldið lengra með þann þráð og við áttum okkur fljótlega á að það er eitthvað annað og dularfyllra sem veldur því að amman hefur efasemdir um þennan nýlega vinskap. Eins eru getgátur móður Kríu um Alzheimer eða önnur minnisglöp ömmunnar hæpnar – amman sýnir einfaldlega engin merki um slíkt þótt hún hagi sér einkennilega varðandi nýja vini Kríu.

Við fáum aldrei mjög skýra mynd af því hvað gerðist á Akureyri, atburðarásin þar er reifuð á endanum en skólafélögum Kríu þar er ekki lýst af neinni nákvæmni. Það sem er þó skýrt er að Akureyri Kríu er algjört helvíti á jörðu – á meðan Reykjavík er algjört himnaríki og hreinlega allir skólafélagar hennar þar frekar skotheldar manneskjur. Og vinkonurnar allar virðast komnar úr ríkum fjölskyldum, eða í það minnsta Elísabet og Úlfhildur (það er óljósara með Svanfríði). Andstæðurnar eru einfaldlega of ýktar til þess að vera trúverðugar.

Ljón í Reykjavík

En hvar er ljónið sem okkur er lofað á kápunni – og hvað er ljón yfir höfuð að gera í unglingaheimi Reykjavíkur nútímans? Það er ansi óljóst – en Kría kynnist fljótlega stráksa að nafni Daníel sem er afskaplega dularfullur, það dularfullur að þótt Kríu gruni fátt þá er lesandi með það á hreinu allan tímann að þessi gutti geti varla verið af þessum heimi. Hann kemur og fer eins og kötturinn sem fer sínar eigin leiðir, minnir um sumt á mennskt ljón í nýlegu smásagnasafni Steinars Braga, Allt fer, en þar var það heldur aldrei sagt berum orðum að persónan væri ljón, það virtist bara á einhvern dularfullan hátt augljóst.

Dularfullur skápur kemur líka við sögu í bókinni og maður veltir því vissulega fyrir sér hvort höfundur sé hér að leika sér með minni úr Narníubókum C.S. Lewis, kannski er einhver norn handan við hornið í næstu bók, þríleikurinn Ljónið, Nornin og Skápurinn hljómar ekki illa.

Niðurstaða

Sannfærandi mynd af lífi Reykjavíkurunglinga nútímans með undirliggjandi dulúð, en þó nokkuð svart-hvít á köflum og ákveðnir þræðir bókarinnar eru ekki nógu heilsteyptir. En engu að síður nógu forvitnileg byrjun á þríleik til þess að maður sé spenntur fyrir að lesa næsta bindi.

Ásgeir H Ingólfsson

Fleiri umsagnir gagnrýnanda