Gagnrýni / Ásgeir H Ingólfsson

Uppskrift að þjóð

Ásgeir H Ingólfsson

Ásgeir H er skáld, blaðamaður og bókmenntafræðingur og er búsettur í Prag í Tékklandi.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:
Sjá nánar hér

Bók til umfjöllunar

Titill Sextíu kíló af sólskini
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 461
Tilnefningar
Verðlaun

Þið þekkið sjálfsagt flest pabbana og ömmurnar sem flytja langar ræður um hvernig allt var erfiðara í gamla daga og menn þurftu að vaða mannhæðarháa snjóskafla til þess eins að komast í skólann og ótrúlegustu hversdagshlutir voru munaður sem mönnum veittist í besta falli á jólum. Nýjasta bók Hallgríms Helgasonar er skáldsagnaútgáfan af þeim ýkjusögum – og rétt eins og þær er hún vissulega byggð á sönnum (en oft ýktum) atburðum.

Sextíu kíló af sólskini er stór og þung bók. 461 blaðsíða, ótal persónur og tonn af orðum, bæði nýjum og kannski ekki síður gömlum, það gömlum að þau hafa legið undir snjóskafli í áratugi eða aldir. Hér má finna mörg tonn af drullu og ennþá fleiri tonn af snjó og hafi, og mögulega er hægt, með góðum vilja, að tína til sextíu kíló af sólskini.

Þetta er saga um þáttaskil í Íslandssögunni, þegar síldin kom með norskum sjómönnum – eða öllu heldur þegar norskir sjómenn bentu Íslendingum á alla þessa síld. „Sögulegir viðburðir gerast jafnan bæði hægt og hratt. Þeir eiga sér yfirleitt aðdraganda sem enginn tekur eftir og synda í kafi að réttri dagsetningu þar sem þeir skjóta svo upp sínum sögulega kolli.“

Framan af bók er eins og Hallgrímur sé annars vegar að leika Guð og hins vegar að reyna að finna uppskriftina að Íslendingnum, sem og uppruna hans. Það sést best á fyrstu kaflaheitunum; fyrsti hlutinn heitir „Úr skafli ertu kominn“ og Biblíuvísanirnar halda áfram í fyrsta kaflanum, „Adam á ísbreiðunni“, en þar er strax í byrjun sköpunarsögunni skeytt saman við frumkraft rithöfundarins, hina auðu síðu.

„Í byrjun var blaðsíðan auð, tómur hvítur pappír. Hvergi sá á dökkan díl, hvorki punkt né kommu. Fjörðurinn var ein augalaus snjóbreiða frá innsta fossi að hafsbrún og engin leið að sjá hvort undir væri sjór eða land. Mjöllin hafði máð öll mannsmerki úr firðinum sem blasti við norðurhimninum jafn ósnertur og daginn sem hann var numinn, nú voru 999 ár síðan.“

„Þetta er saga um þjóð sem er seinþreytt til framfara og blind á auðæfin sem eru fyrir framan hana“

Síðan stígur Eilífur Guðmundsson inn á sviðið, eilífðin sjálf, og við áttum okkur á að á ýmsu hafði gengið fyrir þetta meinta upphaf. Næstu kaflaheiti eru svo eins og viðbót við titil bókarinnar, „3 kg hveiti“, „Lúgusjoppa“ og „99 silungar“ og líklega til marks um að hér er Hallgrímur að reyna að finna uppskrift að þjóðareðli – eitthvað sem er ríkt í höfundarverkinu og kallast oft á við fjölmiðlapistla hans, eins og í Roklandi, sem mögulega er ein fyrsta hrunbókin, þótt hún hafi komið út þremur árum fyrir hrun.

Við erum stödd á enn dramatískari skilum í Íslandssögunni hér, þar sem nútíminn kom með braki og brestum inn í íslenska forneskju. Þetta er saga um þjóð sem er seinþreytt til framfara og blind á auðæfin sem eru fyrir framan hana, þjóð sem stundar stórhættulegar og lítt ábatasamar hákarlaveiðar þótt verðmæt síldin bókstaflega syndi upp í fjöru og biðji um að vera veidd áður en hún drepst. Þeirri þráhyggju er skemmtilega lýst af einum útgerðarmanni sem „andskotans karlasturlun og hetjuþrá“, dauðadaður sem karlmenn herlausrar þjóðar taka að sér í stað herþjónustu.

Þegar á líður kemur svo aðalpersónan í ljós, Gestur Eilífsson, sem á þrjá pabba og þeir tveir sem hann þekkir eru sem nótt og dagur, „Afþví … afþví að sumir lifa í sjóðum, aðrir í ljóðum“.

Íslendingar virðast samkvæmt sögumanni flestir lifa í ljóðum, mögulega af því það er ekki í önnur hús að venda – og það virðist vera þeirra helsti ljóður. Þeim er lýst eins og ljóðrænum sálum sem kunna illa á praktískar hliðar lífsins, fólk sem neyðin kennir alls ekkert að spinna, sama hversu nakið það gerist í fátækt sinni. Ef þeir reyna svo að afsaka sig með legu landsins og timburskorti þá er bent á Grænlendinga, enn afskekktari þjóð en úrræðabetri: „„Hefurðu séð tré á Grænlandi? Það hef ég ekki, en hinsvegar hef ég séð Grænlendinga skutla rostung, hval og sel,“ svaraði Helge.“ Yfirstéttin ýtir svo undir þetta afturhald, kaupmenn vilja helst ekki selja vöru sína óbreyttu alþýðufólki og dæmdir menn vilja helst komast í tugthús sem fyrst til að njóta hlýju fangaklefans og reglulegra máltíða.

Ofgnótt stórsögunnar

Þetta er stór og mikil saga, ekki bara í lengd heldur eðli. Laxness og Íslendingasögurnar bergmála undir og eins minnir hún á sumar fjarlægari heimsbókmenntir. Ömurlegheit hversdagslífsins hjá afskekktri eyþjóð eru skrúfuð í botn eins og í The Poor Mouth, gamansögu Írans Flann O‘Brien, og aðalpersónan, Gestur Eilífsson, er aðeins nýfæddur óviti í upphafi sögu, ekki ólíkt Saleem Sinai í Miðnæturbörnum, sem að vísu fæðist ekki fyrr en langt er liðið á bókina.

En þótt Gestur sé það næsta sem bókin kemst því að eiga mannlega aðalpersónu þá komumst við aldrei nógu nálægt honum til þess að kalla þetta söguna hans Gests, sem fyrr segir er hann óviti framan af og auk þess koma langir kaflar þar sem hann er víðs fjarri, þótt hann sé þó mögulega eina persónan sem tengist nánast öllum persónum sögunnar á einhvern hátt. Nærtækara væri að segja plássið sem sagan gerist í, Segulfjörð, vera aðalpersónuna. Þetta er augljóslega Siglufjörður, nafninu breytt til þess að öðlast skáldaleyfi og fjörðurinn núna nefndur eftir bjórnum sem byrjað var að brugga meira en hundrað árum síðar í yfirgefnu frystihúsi.

„En veikleiki bókarinnar er hins vegar að hana vantar sterkari kjarna, skýrari fókus“

Þannig minnir hún í forminu á meistaraverk Ivo Andrić, Brúin á Drínu, þar sem stór og voldug steinbrú í smábæ er aðalpersóna í sögu sem spannar aldir. Raunar hefði vel mátt skýra söguna eftir staðnum, Segulfjörður hefði eiginlega verið betri titill – svona fyrir utan að ríma enn betur við höfundarverk mannsins sem skrifaði 101 Reykjavík og Rokland, verðandi bæjarlistamann allra bæja.

En veikleiki bókarinnar er hins vegar að hana vantar sterkari kjarna, skýrari fókus. Hér eru margar frábærar bækur í einni, en þessi eina er ekki jafn mögnuð og allar þær sögur sem hún er samsett úr. Það vantar einhvern sterkari þráð í gegnum bókina, kaflarnir eru oft betri sem sjálfstæð listaverk frekar en sem hluti af langri skáldsögu.

Ofgnóttin og ofsafengið hugarflugið og orðaleikfimin er bæði styrkur bókarinnar og veikleiki, samanreknum körlum og kerlingum er til dæmis oft stórkostlega lýst – en svo renna þau flest saman og verða stundum frekar viðundrasýning fyrir vel alda nútímamenn, frekar en það kvalda alþýðufólk sem þau voru.

Mögulega er Íslendingasögunum um að kenna, þar sem hinn alsjáandi sögumaður sér vissulega allt en les aldrei hugsanir. Sögumaður þessarar bókar leyfir sér vissulega stundum að lesa hug sögupersóna sinna, en hann fer sjaldnast mjög langt inn í hugarfylgsnin og nær ekki nærri alltaf að sýna hug þeirra með öðrum meðulum.

Vissulega má velta fyrir sér hvort þau hugarfylgsni hafi verið fátækleg, þegar öll orkan fór í endalaust brauðstrit – en sú kenning rímar illa við kenningu sögunnar um að Íslendingar þessa tíma hafi lifað í ljóðum frekar en sjóðum. Þeir sem lifa í ljóðum finnst mér líklegt að eigi sér ríkara innra líf en hér birtist.

Á þessu eru vissulega undantekningar. Bæði fáum við ágætis innsýn inn í huga Gests seint í bókinni og Eilífur á sína eldræðu snemma: „Og þá, þegar dökkeygður maðurinn leit þau fannríku fjöll, skildi hann loksins stöðu sína í heiminum, skildi að hann var dæmdur maður, skildi að hann hafði frá upphafi verið dæmdur, ekki af mönnum heldur landi, þessu fjandans fárviðralandi, hann var sekur, þessi fjöll höfðu dæmt hann sekan, þau voru í senn rannsakendur hans, dæmendur og refsing. Hann var óbreyttur Íslendingur.“

Heimildirnar, þjóðalagasafnarinn og nöldrandi kerlingar

Skáldsagan er unnin úr fjölbreyttum heimildum og ýmsar persónur munu byggðar á raunverulegum persónum, þeirra þekktust þjóðlagasafnarinn séra Bjarni Þorsteinsson, sem er augljós fyrirmynd prestsins Árna. Sú persóna grípur mann strax í byrjun, píanóspilandi bóhem sem tók prestsvígslu af því á þessum árum var prestsskapur eina athvarf okkar efnilegustu sona (efnilegustu dæturnar urðu að láta sér nægja að giftast prestunum) – og prestarnir oft ólíklegastir allra til að vera miklir trúmenn. En fyrir tilviljun kviknar tónlistaráhuginn á ný þegar hann fær veður af þeirri fjársjóðskistu sem er beint fyrir framan hann. Tónlist sem enginn tekur alvarlega. „En Árni Benediktsson var nógu vitur til að vita að á þeim gatnamótum þar sem hlátur og hneykslan mætast liggur einmitt gullið grafið.“ En því miður breytist séra Árni í hálfgerða grínpersónu þegar á líður, prest sem er dauðfeginn þegar kirkjan fýkur og vonar að það taki sem lengstan tíma að byggja nýja, en ástríða hans týnist, það er eins og það slitni upp úr vinskap hans við sögumann og eftir það er honum aðeins lýst úr fjarska. Saga hans er dæmi um marga lausa enda, athygli sögumanns er sjaldnast mjög lengi á sömu sögunni.

 „Sú persóna grípur mann strax í byrjun, píanóspilandi bóhem sem tók prestsvígslu af því á þessum árum var prestsskapur eina athvarf okkar efnilegustu sona“

Heimildirnar stýra því vissulega að þetta verður dálítil karlasaga, enda kvenpersónurnar væntanlega oft nær því að vera hreinn skáldskapur – og þær renna stundum dálítið saman í einn nöldrandi kvennakór.

Þrátt fyrir alla sína vankanta er þetta þó mögnuð bók um margt og kannski helst það hvernig henni tekst að skoða fortíðina á sama tíma og hún lítur sífellt til liðinnar framtíðar. Eins og þegar konur verka síld við frumstæðar aðstæður og hugsa með sér:

„Framtíðin innihélt engar vonir, enga drauma, engan spenning, hún yrði aðeins nákvæm eftirlíking fortíðarinnar. Og var þetta stóri lásinn á íslenska lífinu.

Þessi skrýtnu, nýju verk voru fólki því langþráð tilbreyting. Í fyrsta sinn í Íslandssögunni fylgdi vinnu dagsins sú von að verkefni morgundagsins yrðu önnur. Loksins var keðja vinnandi daga orðin að tröppu.“

Svo er spurningin hvert þær tröppur liggja. Því í þessari rannsókn á þjóðareðli vitrast okkur aðeins brot af þeirri þjóð, uppskrift sem er búið að bæta heilli tuttugustu öld og broti af þeirri tuttugustu og fyrstu, þannig að þessi afturhaldssama og nægjusama þjóð er nú orðin nýjungagjörn og gráðug, þótt allt hitt búi enn undir í þeirri þversögn sem einkennir allar þjóðir. Hvernig það gerðist gæti alveg verið efni í nokkur framhöld.

Niðurstaða

Magnaður texti og rannsókn á þjóðareðli, þar sem veröld sem var er lýst af miklu listfengi. Hins vegar vantar skýrari kjarna, sterkari þráð í gegnum bókina alla – lausu endarnir eru ansi margir.

Ásgeir H Ingólfsson

Fleiri umsagnir gagnrýnanda