Gagnrýni / Brynhildur Björnsdóttir

Unglingar, dauði og drepsóttir

Brynhildur Björnsdóttir

Brynhildur skrifar í Fólk og sérblöð í Fréttablaðinu.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Rotturnar
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 273
Tilnefningar

Rotturnar er þriðja skáldsaga Ragnheiðar Eyjólfsdóttur. Fyrri tvær sögurnar eru samtengdar fantasíusögur sem hefjast í raunheimum og færast svo yfir í framandi veröld og í raun má segja það sama um þessa bók þó svo á allt annan hátt sé.

Bókin hefst á því að Hildisif sextán ára er að flytjast heim til Íslands með fjölskyldu sinni eftir að hafa búið erlendis um árabil. Það er vor og henni hefur boðist sumarvinna á afskekktum stað á vegum sama fyrirtækis og réð móður hennar í vinnu sem var ástæða þess að fjölskyldan flutti heim til Íslands. Þegar í sumarvinnuna er komið kynnist hún Flexa og fleiri krökkum og af stað fer hröð og spennandi atburðarás  sem verður til þess að að lokum þarf Hildisif ásamt félögum sínum að berjast fyrir lífi sínu í bókstaflegri merkingu og á ýmsum vígstöðvum ásamt því að upplifa ástina kvikna.

Til að eyðileggja ekki fyrir væntanlegum lesendum skal söguþráðurinn ekki rakinn frekar hér en þó skal látið uppi að dularfullir áverkar og útdauðar drepsóttir koma við sögu. Margar óvæntar beygjur og hlykkir á söguþræðinum verða til þess að lesendur eru stöðugt á tánum og tilbúnir að hrökkva í kút.

Unnendur spennutrylla og vísindaskáldsagna ættu að fagna þessari bók ákaft því hún er skemmtilega skrifuð og haganlega fléttuð. Persónusköpunin er góð og samtöl raunveruleg og vel farið með vísanir enda augljóst að höfundur hefur lagt sig fram við að hafa bæði vísindalegar og sagnfræðilegar staðreyndir á hreinu við skrif bókarinnar.

Einnig má finna ákveðnar heimspekilegar og jafnvel trúarlegar pælingar í bókinni, sem tengast voninni og því hvernig það að vona getur haft áhrif á andlega og jafnvel líkamlega heilsu, hvernig og hvort er hægt að gera út af við vonina og hvaða máli það skiptir að halda í hana. Það hefði reyndar alveg mátt gera meira úr þeim þætti fyrst var komið með hann inn í söguna á annað borð þar sem hann fjarar eiginlega út eftir að hafa komið sterkur inn um miðbik bókar.

Það er ástæða til þess að benda á að þó fyrri tvær skáldsögur höfundar geti talist barnabækur þá fellur þessi tvímælalaust í flokkinn ungmennabók þar sem má finna í henni óhugnalega spretti og grafískar ofbeldislýsingar og yrði kvikmynd gerð sem fylgdi bókinni vel eftir, sem væri reyndar mjög góð hugmynd því framvindunni er oft mjög vel myndlýst, væri sú mynd nokkuð örugglega bönnuð innan sextán.

Niðurstaða

Rotturnar er skemmtileg aflestrar, spennandi og vel skrifuð og gæti vel haldið lesendum að verki langt fram yfir háttatíma. Vel skrifaður, haganlega fléttaður  og nokkuð óhugnalegur vísindaspennutryllir.

Brynhildur Björnsdóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda