Gagnrýni / Þórhildur Ólafsdóttir

Skúli fógeti – Saga frá átjándu öld eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur

Þórhildur Ólafsdóttir

Þórhildur er bókmenntafræðingur og var dósent í frönsku við Háskóla Íslands, vann í Evrópráðinu í 25 ár, var þar yfirmaður jafnréttismála og síðan menntamála og að lokum mennta- og æskulýðsmála.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:
Sjá nánar hér

Bók til umfjöllunar

Titill Skúli fógeti: Faðir Reykjavíkur – saga frá átjándu öld
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 256
Tilnefningar

Hann var ekki bara maður, hann var heil öld, var einhvern tímann sagt um
franska skáldið og rithöfundinn Victor Hugo og nítjándu öldina. Líklega getum
við sagt það sama um Skúla Magnússon fógeta, mann átjándu aldarinnar. Hann
lifði öldina næstum alla, var fæddur árið 1711 og dó í lok árs 1794. Sögu hans er
vart hægt að segja – og enn síður að skilja – nema að tengja hana viðburðum og
aldarfari, bæði á Íslandi, Danmörku og meginlandi Evrópu. Því þó að átjánda
öldin hafi fyrst og fremst verið hunguröld, tími hörmunga og náttúruhamfara
fyrir Íslendinga, þá var hún líka upplýsingaröld, tímabil framfara og nýrrar
heimssýnar.

Öllu þessu miðlar Þórunn Valdimarsdóttir snilldarlega til lesenda í bók sinni um
Skúla fógeta sem kom út fyrir jólin 2018. Við fylgjum þessum óstýriláta og
sennilega ofvirka strák alveg frá því að hann kemur í heiminn í Keldunesi við
Öxarfjörð þar til hann deyr gigtveikur og fótkaldur úr „sótt með hósta og kvefi“ í
Viðey. Við sjáum hann alast upp hjá prestayfirstéttinni á Norðausturlandi hvar
honum var snemma innrætt að hann yrði að vera afkastamikill og leggja hart að
sér við vinnu. Skúli vinnur sem búðarloka og matsveinn kaupmanns á Húsavík,
þrælar á vertíðum og í almennri sveitavinnu strax sem barn. En hann kemst líka
til mennta, fær góða uppræðslu hjá klerkum og lögmönnum norðlenskum áður
en hann siglir til Hafnar árið 1732. Við fylgjumst með honum „örgeðja og
óstýrilátum“ í Höfn, sjáum hann nokkrum árum síðar komast í
sýslumannsembætti á Íslandi og þaðan upp á hæstu embættistinda
Danakonungs á Íslandi sem fyrsti íslenski landfógetinn. En Skúli lét sér ekki
nægja að sitja fyrirferðarmikill í feitum embættum heldur barðist hann með
kjafti og klóm fyrir því að iðnbyltingin sem þá var að hefja sína göngu í Evrópu
næði til eyjunnar aumu. Þess vegna eignuðust Íslendingar hinar frægu
Innréttingar, þess vegna varð Reykjavík til. Meðan móðuharðindin geisa á
Íslandi, sjáum við Skúla gigtveikan sitjandi við skriftir í Kaupmannahöfn, og að
lokum verða að veiku gamalmenni sem hefur verið sett til hliðar af nýjum
valdhöfum. Þórunni tekst að gera fógetann okkur einstaklega nákominn, hún
segir okkur frá breyskleika hans og dugnaði, krafti og slægð, færir lesanda hann
heim í stofu með kostum sínum og göllum.

Fyrir þá sem vilja kynna sér sögu 18. aldarinnar er Skúli Fógeti alveg einstök
bók. Lesandi kynnist stjórnskipulagi landsins og sambandinu við Danaveldi,
afstöðu Dana til Íslendinga, Íslendinga til nýlenduveldisins. Við fáum innsýn í

baráttu Skúla við einokunarkaupmenn meðan hann var sýslumaður í Skagafirði,
lærum margt um yfirstétt Íslendinga sjálfra og kynnumst lífi fátækra og
útskúfaðra sem streitast við að lifa af, þjáðir af hungri og pestum. Með líflegri
frásögninni tekst Þórunni að hjálpa lesanda til að öðlast ferska sýn á þetta allt.
Þeirri sem hér skrifar þótti sérlega gaman að fá að kynnast heimilislífi og
aðbúnaði á stórbýlum aldarinnar, stöðu kvenna af ýmsum stigum og klæðnaði
þeirra. Hin ýmsu mál tengd starfsemi Innréttinganna, þar á meðal störf og kjör
verkafólks sem þar unnu koma skýrt í ljós. Sögurnar af viðskiptum þeirra við
yfirmenn sína eru hreint stórgóðar. Loks fannst mér höfundi takast mjög vel að
miðla tengslum fólksins við náttúru lands síns, grimma og gjöfula í senn, rétta
okkur upp í hendurnar eyju Danaveldis í norðri eins og hún var á þessum tíma.

Niðurstaða

Fáir sagnfræðingar ef nokkrir ná því að fanga liðna tíma og gera þá skiljanlega nútímafólki eins og Þórunn Jarla Valdimarsdóttir. Það er ekki létt verk því fortíðin er í dag eins framandi og fjarlægustu lönd. Skúli Fógeti er skrifuð af einstakri innlifun og næmni. Þórunni tekst, á sínu óvenjulega orðfagra máli að greiða okkur á meistaralegan hátt leiðina að þessum löngu liðna tíma og fulltrúa hans, fyrsta íslenska landfógetanum. Sjónauki hennar verður að skýrri sýn okkar á landið og fólkið sem það byggði á átjándu öld, öld hamfara en líka framfara. Til að skilja hvaðan við komum og hver við erum í dag þurfum við að lesa þessa bók.

Þórhildur Ólafsdóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda