Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína er doktor í íslenskum bókmenntum og sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur. Ólína er fyrrverandi skólameistari og alþingismaður.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Enn lokar jökull
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 175

Þegar Matthías Johannessen kvaddi sér hljóðs með sinni fyrstu ljóðabók (Borgin hló, 1958) var ljóst að þar fór skáld sem hafði ljóðmálið á valdi sínu. Þrátt fyrir rímleysi var því veitt athygli að ljóð hans voru vel byggð og oft myndsterk. Eins og ungu Reykjavíkurskáldi hæfði orti hann um „götur með varir blautar af tjöru“, og strax þá var söknuður eftir liðnum tíma og vitundin um fallvaltleikann einkenni á ljóðum hans – svo er enn.

Í nýjustu bók sinni, Enn logar jökull, er Matthías sem fyrr að kljást við tímann sem hefur verið grunntónn svo margra ljóða hans frá upphafi. Tíminn, sagan og tortímingin eru grunnstef þessarar bókar, sem og feigðin og hin óhjákvæmilegu endalok í ýmsum myndum.

Bókin skiptist í tvo meginþætti. Fyrri hlutinn nefnist Land mitt og er að verulegu leyti sögulegur. Nokkurskonar samræða við fornöld samhliða hugleiðingum um eyðingarmátt landsins annars vegar, hins vegar eyðingarmátt mannsins á jörðinni. Víða gætir prédikunartóns í heimspekilegum hugleiðingum um lífið og tilveruna, eins og í ljóðinu Á vegum seiðmanna:

...

Enginn hefur bundið okkur

við þetta sker, nema sjáfskaparvíti

okkar sjálfra,

                        við erum

á flæðiskeri stödd, vorum

í helgreipum seiðmanna

og fjölkynngi þeirra.

 

Við lestur þessa og fleiri viðlíka ljóða vaknar oft vafi um mörk ljóðmáls og ræðu, sögu og pistils. Innan um eru svo önnur skáldlegri og jafnvel hefðbundnari ljóðmæli þar sem rím, stuðlar og höfuðstafir bera myndmálið uppi. Þó verður að segjast að orðgnóttin vill á stundum bera inntakið ofurliði einkanlega í þessum hluta bókarinnar, enda auðséð að skáldinu liggur ýmislegt á hjarta.

Við tjaldskör tímans - frá fornöld til fullveldis nefnist síðari hluti bókarinnar. Ljóðin hér eru söguþrungin líkt og framar, mikið um vísanir í bókmenntahefð og goðafræði. Að sumu leyti er þessi hluti þó persónulegri og ljóðrænni þar sem skáldið lítur oftar inn á við. Hér eins og í fyrri hlutanum er dauðinn nálægur og náttúruöflin blása ösku og eimyrju yfir land og lýð. Ljóðmælandinn er eins og vindurinn sem „blæs úr fornum heimkynnum menningar og næðir um það frumstæða mannkyn sem nú eigrar um jörðina og er helsta vandamál hennar“ eins og höfundur útskýrir sjálfur aftan á bókarkápu. Víða gefur að líta sterkar ljóðmyndir, líkt og í ljóðinu Hugur og hold:

 

Í auðmýkt festir hugur minn rætur

við heljartök gamalla

sagna

þegar aldir renna í einum farvegi

                                               eins og fljót

að ósi

            og ljósið fellur inn í tímans þagnir.

 

Fleira er þó á seyði: Einsemd, feigðargrunur, tilfinning fyrir endanleikanum, söknuður eftir horfnum tíma, uggur um hvað taki við. Þessar hugrenningar leita fast á í hverju ljóðinu af öðru, og fátt um svör. Nú bregður svo við að orðum fækkar í persónulegustu ljóðunum og ljóðmælandinn sýnir lesandanum trúnað. Dæmi um það er ljóðið Lok þar sem kallast er á við kunnuglegt stef annars Matthíasar um smáblómið í eilífðinni:

 

Ég er einn

og enginn gengur

hjá,

 

eitt lítið strá

á tímans vegaleysum.

 

Heiti bókarinnar ber skáldinu sjálfu vitni. Eftir lesturinn má sannarlega segja um neista Matthíasar eins og jökulinn: Hann logar enn.

Niðurstaða

Skáldið er hinn aldni jökull sem gerir ýmist að gjósa eða varpa frá sér aftanskini sólar í þessu verki.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda