Gagnrýni / Brynhildur Björnsdóttir

Silfurlykill að framtíðinni

Brynhildur Björnsdóttir

Brynhildur skrifar í Fólk og sérblöð í Fréttablaðinu.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Silfurlykillinn
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 225
Tilnefningar

Framtíðin er komin. Systkinin Sumarliði og Sóldís eru ásamt pabba sínum að flytja í nýtt hús sem er gult og hét víst einu sinni Strætó númer sjö. Afi pabba sagði honum sögur af þvi að þegar hann var lítill hefðu svona “strætóar” verið út um allt og notaðir til að flytja fólk milli staða. Krökkunum finnst það skrýtin tilhugsun enda er heimurinn sem þau búa í afskaplega ólíkur okkar. Þar hafa margar spár samtímans ræst og lífið snýst um lífsbaráttuna í sinni tærustu mynd. Dagurinn fer að mestu í að leita að mat og einhverju nýtilegu og á kvöldin þarf að verja fátæklegar eigur fyrir öðrum. En einn daginn verður stelpan Karitas á vegi þeirra og hún býr yfir miklu leyndarmáli.

Sigrún Eldjárn er einstaklega afkastamikill og fjölhæfur rithöfundur. Eftir hana eina liggja 60 titlar frá árinu 1980 fyrir börn á öllum aldri og 15 ljóðabækur til viðbótar þar sem bróðir hennar Þórarinn Eldjárn yrkir ljóðin en Sigrún myndskreytir, að ógleymdum öllum þeim fjölda verka annarra höfunda sem hún hefur myndskreytt. Kynslóðir þekkja bækurnar um Kugg og Málfríði og BéTvo svo dæmi séu tekin og þá má heldur ekki gleyma því að hún er einn afkastamesti þríleikjahöfundur landsins, og má þar nefna Safnabækurnar, Eyjubækurnar og sögurnar frá Skuggaskeri. Hún hefur fylgt kynslóðum íslenskra lesenda fyrstu skrefin og séð til þess að ungir bókaormar hafi nóg að bíta og brenna.

Silfurlykillinn hefur flest höfundareinkenni Sigrúnar Eldjárn, glaðlegt yfirbragð, fyndna og hressa krakka, ævintýralegt sögusvið og ráðgátu að ógleymdum einstaklega fallegum myndum og myndskreytingum. Undirtónninn er þó alvarlegri en oft áður, tæknin sem við reiðum okkur svo mikið á er horfin og með henni í raun samfélagið sjálft. Hlutir sem við teljum verðmæti eins og tölvur og bílar eru harla gagnslaus og helst nýtileg sem byggingarefni. Þó bókin gerist í framtíð þar sem maðurinn hefur eyðilagt bæði umhverfi sitt og samfélag má þar einnig finna hliðstæður við aðstæður flóttafólks í samtímanum og margt sem vekur lesandann til umhugsunar.  Lífið er þó ekki alslæmt og krakkarnir gleðjast, leika sér og aðlagast, alveg eins og krakkar gera svo vel á öllum stöðum og tímum. Bókin er þannig ekki harmagrátur yfir örlögum heimsins eða dystópísk hörmungasaga heldur spennandi og full af gleði og von en líka spegill á samtímann og samhengi lífsbaráttu fjölskyldunnar við tæki eins og farsíma vekur upp þarfar spurningar um gildismat.

Þá má ekki láta hjá líða að minnast á hversu fallegur prentgripur bókin er en Sigrún brýtur hana um sjálf. Letrið er bæði læsilegt og skýrt og skiptir um lit þegar sögusviðið breytist,  pappírinn þykkur svo myndirnar sem að sjálfsögðu eru eftir Sigrúnu sjálfa njóta sín einkar vel. Það rímar vel við það stef í sögunni að eitt af því fáa úr okkar tíma sem hefur haldið og jafnvel aukið við gildi sitt eru bækur.

Niðurstaða

Einstaklega falleg bók með spennandi og léttu yfirbragði en áhugaverðum og þyngri undirtóni. Sigrún Eldjárn í fantaformi.

Brynhildur Björnsdóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda