Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína er doktor í íslenskum bókmenntum og sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur. Ólína er fyrrverandi skólameistari og alþingismaður.

Bók til umfjöllunar

Titill Sálumessa
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 87
Tilnefningar

Sálumessa nefnist ný ljóðabók eftir Gerði Kristnýju. Falleg bók, létt í hendi en þung fyrir brjósti. Grannar bjarkargreinar sem myndskreyta bókina eiga sér systur í einu ljóðanna:

 

Það vantar orð yfir snjóinn sem sest á örgranna

grein bjarkar í stingandi stillu (85)

 

Í bókinni er ort til og um konu sem fallið hefur fyrir eigin hendi eftir kynferðisofbeldi í æsku og andleg veikindi. Tilefni ljóðanna eru raunverulegir atburðir sem Gerður Kristný fjallaði sjálf um í tímaritsviðtali sem hún skrifaði fyrir allnokkrum árum og ollu málaferlum gegn henni. Hún á þess vegna ýmislegt ósagt og bókin ber þess merki. Í nýlegu kynningarviðtali segir Gerður Kristný frá þessum aðdraganda og  kynnum sínum af konunni sem ort er um. Þær upplýsingar opna sýn á efni ljóðanna sem satt að segja væru sum hver býsna torskilin annars.

Gerður Kristný (f. 1970) á að baki fjölda útgefinna ritverka sem hafa aflaði henni viðurkenningar og verðlauna á ýmsum vettvangi. Ljóð hennar eru hárbeitt og myndræn, afar hnitmiðuð og skörp í framsetningu og hugsun. Hún hefur einstakt vald á ljóðmáli og það bregst ekki heldur í þessari bók.

 

Grýlukerti uxu

fyrir glugga

 

Þú horfðir út um vígtenntan skolt

vetrarins ...  (15)

 

Eins og oft áður leitar höfundur í smiðju fornsagna og goðaheims til þess að skapa hugblæ og hugrenningatengsl. Viðfang ljóðanna – konan sem sungið er yfir – liggur utangarðs í orðsins fyllstu merkingu. Það er myndgert með dysinni þangað sem ljóðmælandinn hefur vitjað hennar. Þar hvílir hin látna umlukin þögninni sem sveipað hefur líf hennar og þjáningu, því að:

 

Þau þyrluðu þögn

yfir orð þín

örfínu lagi af lygum

svo enginn þyrði

að hafa þau eftir (50)

 

Þessi þrúgandi þögn sem sveipað hefur viðfang ljóðanna þráir þó að verða rofin og er við að bresta:

 

Þungt dynur

þögnin í

moldinni (31)

 

Sem fyrr segir eru ljóð bókarinnar hvert öðru fegurra að smíð og áferð. Helsti gallinn er þó sá að ef lesandinn hefur ekki fyrrgreindar forsendur fyrir framan sig – sögu konunnar og upplýsingar sem höfundur hefur gefið í viðtölum um efni bókarinnar – missa sum ljóðin marks því þau vísa ekki öll út fyrir sig. Fyrir vikið verður einhverskonar rof á trúnaðarsambandinu sem einatt þarf að vera til staðar milli ljóðmælanda og lesanda. Gerði Kristnýju liggur mikið á hjarta. Bókin er öðrum þræði persónulegt uppgjör hennar við skylmenni konunnar. Hún á erindi – samviskuerindi. Um leið verður lesandinn meira eins og áheyrandi eða vottur að málflutningi heldur en þátttakandi eða trúnaðarvinur. Þetta er helsti galli bókarinnar sem annars er meistarasmíð að formi og framsetningu því mörg ljóðanna grípa fast og bíta.

Sálumessa er kannski ekki rétta hugtakið yfir það sem fram fer í þessum ljóðabálki. Sálumessa er bæn lifenda fyrir sálu látinnar persónu. Þessi ljóð eru ekki bæn heldur málstaður og tjáning. Jafnvel geðlausn. Bókin hefst í dysinni með fullkominni samsömun ljóðmælandans með viðfangi sínu. Leiðin liggur svo um refilstigu sársauka og reiði. Um síðir þegar „tennurnar hafa verið dregnar úr vetrinum“ (81) þiðnar klakinn og „tjarnir fljóta yfir bakka sína“ (77). Eitthvað hefur mýkst og slaknað. Því er þó ekki hægt að lýsa og enn er margt ósagt því að „það vantar orð“ (87).

Niðurstaða

Ljóðin eru meistarasmíð, úrlausn efnis sem höfundi liggur þungt á hjarta.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda