Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína er doktor í íslenskum bókmenntum og sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur. Ólína er fyrrverandi skólameistari og alþingismaður.

Bók til umfjöllunar

Titill Smáa letrið
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 67
Tilnefningar

Linda Vilhjálmsdóttir (f. 1958) hefur á tæpum fjórum áratugum sent frá sér fjölda ljóða, auk leikrita og einnar sjálfsævisögulegrar skáldsögu, og unnið til verðlauna og viðurkenninga fyrir skrif sín.

Yfirleitt eru ljóð Lindu persónuleg og myndræn. Form þeirra lætur ekki mikið yfir sér, en þar er ekki allt sem sýnist. Mörg ljóða hennar geta skilið eftir sig barkandi bragð, kallað fram kaldan hlátur eða djúpa meðlíðan. Svo er einnig að þessu sinni í hennar nýjustu bók sem ber heitið Smáa letrið.

Á kápu bókarinnar er mynd af hjarta. Annar helmingur þess er á forsíðu, hinn á baksíðu, þannig að þegar lesandinn opnar bókina opnast hjartað. Þar streyma ljóðin fram á blaðsíðurnar, hógvær og lágstemmd í forminu, engir upphafsstafir, engin greinarmerki, bara orðin sjálf í allsleysi sínu og allsnægtum. Þó er ekkert léttvægt við inntak þessarar bókar, því að ljóðin eru sterk. Þau hrópa í hógværð sinni, líkt og bæld rödd sem brýst fram þegar síst varir. Þau bíta. Taka í hjartað. Heiðarleg og grimm. Kaldhæðin og hlý.

Oft er það svo að það sem raunverulega skiptir máli kemur fram í smáa letrinu. Þar birtist raunveruleikinn á bak við ásýndina. Launbitur titill ljóðabókarinnar er þess vegna vel við hæfi. Bókin miðlar kvenlegri reynslu sem oftar en ekki er undirtexti í bókmenntahefð okkar og opinberum veruleika. Í fyrsta ljóðinu renna kvenmyndir kynslóðanna fram á sviðið eins og fjárhópur af afrétti, kindurnar myndhverfing kvenleikans, hver með sínum einkennum sem í senn eru broslegar og átakanlegar:

 

nú streymum við

misvænar niður á völlinn

 

margar

með þunga snjóköggla á kviðnum

 

Sumar bera „klakakrónuna eins og erfðasynd á höfðinu“. Af öðrum stafar brunalykt nornabrennunnar. Enn aðrar bera með sér of mikið af öllu og eru „of fullar í ofanálag“.

Kvenlegar rætur, lífsbarátta kvenna, kúgun, bæling, sjálfsmyndarkreppa, sjálfsmyndarfrelsun. Allt eru þetta viðfangsefni bókarinnar sem opnar á afar sára hluti, veitir jafnvel innsýn í martraðarkennt persónulegt áfall þar sem ljóðmælandinn hefur frosið í viðjum þungrar reynslu. Þó er ekki kyrrstaða í ljóðunum. Ekkert varanlegt lamandi ástand heldur hreyfing, þróun. Og það þó að sjálfsmyndin sé ekki alltaf upp á marga fiska

 

stundum líður mér

eins og síld í tunnu [...]

 

stundum

eins og aflandskrónu í höftum [...]

 

alltaf

eins og stelpukrakka á bakaleið í myrkri

 

Samhliða sjáum við karlmann allra tíma „með heiðbláa skykkjuna hangandi á bakinu“ eins og segir í einu ljóðanna:

 

stígur hann niður

og veður fram eftir rauðum slóðanum

 

yfir hold blóð reiði

og skömm mæðra okkar og dætra

 

Systurnar reiði og skömm eru hálfgert leiðarstef þessari persónulegu ljóðabók. Sum ljóðin hrópa þær fram, önnur hvísla þeim. En undir bókarlok hefur náðst mikilvægur áfangi sem líkja má við einhverskonar lausn þar sem litið er til baka „í mildara ljósi sjálfstraustsins“.

Þannig má segja að lesandinn sé tekinn í sálrænt ferðalag inn að hjartafylgsnum skáldsins. Á leiðinni er ljóðmælandinn að reyta arfa og „tína upp rusl svo gróðurinn megi dafna“ eins og segir í síðustu línu bókarinnar. Sú niðurstaða lætur lítið yfir sér en opnar á óorðaðan skilning og einhverskonar sátt.

Niðurstaða

Hnitmiðuð og grípandi ljóðabók sem situr eftir í hugskoti að lestri loknum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda