Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína er doktor í íslenskum bókmenntum og sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur. Ólína er fyrrverandi skólameistari og alþingismaður.

Bók til umfjöllunar

Titill Sorgarmarsinn
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 164

„Í nútímanum mega höfundar ekki gleyma „innra lífi“ einstaklingsins, sem er enn í fullu gildi þrátt fyrir allt sem sækir að ytra. Það líf má ekki vanmeta,“  sagði Gyrðir Elíasson (f. 1961) í útvarpsviðtali ekki alls fyrir löngu. Segja má að hans nýjasta bók, Sorgarmarsinn, sé einmitt um þetta. Með henni leggur hann lokahönd á sagnaþríleik sem hófst með Sandárbókinni (2007) og var síðan fram haldið í Suðurglugganum (2012) eins og fram kemur á baksíðu bókarinnar. Þær bækur fjölluðu báðar um líf listamanns, önnur um líf málara en hin um rithöfund.

 

Nú er röðin komin að tónsmiðnum Jónasi, sem starfar við að gera auglýsingatexta, en er nú að reyna að virkja listataugina í sjálfum sér með samningu tónverka. Jónas er kominn austur á land til sumardvalar í húsi sem hann hefur fengið að láni í litlu þorpi. Þar dvelur hann einsamall, starir í eldinn líkt og Grettir forðum, og tekst á við sína fortíðardrauga. Í þorpinu verður honum flest að yrkisefni. Tónlistin sækir á hann í öllu sem lætur á sér bæra í umhverfinu og Jónas hefur ekki undan að taka á móti og festa á nótur.

 

Samhliða er ytri veruleikinn að renna honum úr greipum, og nýr veruleiki að verða til. Tími sögunnar líður frá vori til veturs og í ytri veruleikanum er margt á fallanda fæti. Hjónabandið er að niðurlotum komið. Starfið sömuleiðis. En sköpunarkrafturinn eflist til mótvægis í samvistum við náttúruna og mannlífið í þorpinu, þar sem það sem ekki er sagt hefur jafnvel meiri þýðingu en það sem sagt er.

Gyrðir er ekki síst þekktur fyrir ljóðabækur sínar og smáprósa, en einnig sögur og þýðingar. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir bókina Milli trjánna. Stíll hans er almennt knappur, ljóðrænn og vandvirknislegur og oft er dansað á milli raunheims og fantasíu. Sorgarmarsinn er meiri prósi en margt sem frá Gyrði hefur komið en stílbrögðin kunnugleg, vönduð og knöpp. Bókin skiptist í þrjá kafla, ABC, og er þannig byggð upp líkt og lítið tónverk. Sagan hnitast um einsemd og einangrun eins og mörg fyrri verka hans en nú er fantasían að mestu fjarverandi.

Það er einhver notalega landsbyggðartaug í þessari sögu. Auðfundið er að höfundur þekkir til í dreifbýlinu og hefur lag á að bregða upp sérkennandi svipmyndum úr mannlífinu þar. Húmorinn er heldur ekki langt undan í orðaleikjum og tilvísunum ýmiskonar sem hæfa einhvernveginn sviðsetningu og andrúmslofti. Eitt skondið dæmi er þegar Jónas stendur frammi fyrir þrýstinni afgreiðslukonu í einu búð bæjarins, missir augun niður á mikilfenglegan, óheftan barm hennar og hugsar: „United silicon?“

Sorgarmarsinn er saga um sköpunardeigluna í tilveru listamanns. Stundum þarf að „brjóta steina til að komast að kjarna þeirra“ eins og segir á einum stað. Sagan er ferðalag í ýmsum skilningi þó að ekki sé alveg ljóst á hvaða leið sögupersónan er.  „Alltaf á leiðinni“ segir Jónas sjálfur. Undir bókarlok er þó engu líkara en hringnum sé lokað og um leið er minnt á hverfulleika og endalausa hringrás.

„Þorpið er löngu horfið úr baksýnisspeglinum [...] líkt og flugvél sem hverfur sporlaust af radar [...] og eitt andartak finnst mér einsog þetta þorp hafi aldrei verið til og ég, Jónas (ef ég er hann), hafi aldrei verið þar.“

Niðurstaða

Frábær bók. Hógvær gimsteinn í jólabókaflóðinu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda