Gagnrýni / Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Lífsþorsti og lífsbruðl

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína er doktor í íslenskum bókmenntum og sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur. Ólína er fyrrverandi skólameistari og alþingismaður.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Listamannalaun
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 219

Þrír ungir listamenn, hýrðir „víns af tári“, ráfa milli öldurhúsa Reykjavíkur þar sem þeir slökkva lífsþorstann, miklast af verkum sínum, slá hver öðrum á öxl með lof og lastmæli á vörum. Myndlistarmaðurinn Alfreð Flóki (1938-1987), skáldið Dagur Sigurðarson (1937-1994) og (þá verðandi) rithöfundurinn Ólafur Gunnarsson (f. 1948). Ungir menn, næmir, brothættir, uppivöðslusamir, stórir og litlir í senn. Alfreð Flóki og Dagur þegar komnir út á feigðarbrautina í fylgd Bakkusar. Ólafur, höfundur bókarinnar, áratug yngri og upp með sér af félagsskap stórsnillinga, reynir að halda í við þá í slarkinu og tekst býsna vel framan af. Seinna kemur fjórða séníið inn á sviðið, Steinar Sigurjónsson (1928-1992) – margbrotinn maður í ýmsum skilningi.

Í bók sinni Listamannalaun segir Ólafur frá kynnum sínum af þessum eftirminnilegu mönnum og fleirum sem settu mark sitt á Reykjavík á sjöunda og áttunda áratugnum: Sátu á Mokka fyrri part dags eða réttu sig af í Norræna húsinu, fengu sér „gúmsí-lúms“ á smurbrauðsstofunni á Rauðarárstíg síðdegis og helltu svo rækilega í sig á Naustinu á kvöldin. Slæptust milli húsa og hver til annars um nætur. Listamenn og hugsuðir með stóra drauma en báru hver sitt helsi um fætur – kvíða, drykkjuskap, verkfælni, andleg mein – og voru þar með  ófærir um að láta draumana rætast.

Lesandinn fær hér innsýn í samskipti og vináttu, en einnig togstreitu og listamannaríg. Á afar mannlegan og eftirminnilegan hátt eru okkur sýndir lífshættir og persónur listamanna sem þjóðin hefur haft á vörum lengi og þekkir af verkum og afspurn. Styrkleikar þeirra, brestir og veikleikar eru dregnir pensildráttum húmors og harmrænna lita. Úr verða myndir – ekki alls óþekktar –  sem varpa ljósi á viðfangsefni, listsköpun og afdrif þeirra allra.

Listamannalaun er minningaskáldsaga. Laustengdir þættir sem saman mynda eina frásagnarheild. Sögusviðið er Reykjavík, en einnig Kaupmannahöfn sem enn var hálfgerð höfuðborg Íslendinga á þeim tíma sem til umfjöllunar er. Þetta er karlasaga – íslenska listamannalífið ennþá að verulegu leyti karlaheimur. Í gegnum ölvunarþoku grillir í konurnar baksviðs – Elsur, Tótur, Ingibjargir, Möggur, Sólur, Bassíar og Gullur – mæður, ástkonur og eiginkonur, sumar nefndar fullu nafni, aðrar ekki. Þeim er, eins og við má búast, lítill gaumur gefinn í straumi lífsnautnanna. Má segja að þar með sé höfundur trúr ölvunaralgleyminu sem setur svo sterkan svip á söguna, því hún byggist upp eins og fyllerí. Frá því eldur kviknar í æðum við fyrsta drykk, stigmagnast ölvunin þar til niðurtúrinn hefst og timburmennirnir taka við. Lesandinn sogast með slarklífinu, sér menn og atvik með augum ungs og stórhuga rithöfundar sem þroskast eftir því sem líður á. Í fyrstu er hann fullur lotningar fyrir listbræðrunum. Svo kemur að því að hans eigin þroski og lífsþarfir valda núningi við lifnað og framgöngu hinna. Óhjákvæmilegt uppgjör á sér stað. Loks sorgleg en fyrirsjáanleg lok.

Ólafur Gunnarsson er löngu þjóðkunnur vegna mikilfenglegra ritverka á borð við Tröllakirkju, Málarann, Vetrarferðina, Syndarann og fleiri bóka. Þó að þessi saga sé frábrugðin flestum hans fyrri verkum mun hún verða í minnum höfð. Það er mikil list að setja saman minningaverk, svo geislandi af húmor og harmi, svo grípandi og eftirminnilega sem hér er gert.

Niðurstaða

Frábærlega stíluð frásögn, ofin harmrænni glettni og lærdómi um menn sem mörkuðu spor í íslenskt menningarlíf.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda