Gagnrýni / Þórhildur Ólafsdóttir

Lifandilífslækur

Þórhildur Ólafsdóttir

Þórhildur er bókmenntafræðingur og var dósent í frönsku við Háskóla Íslands, vann í Evrópráðinu í 25 ár, var þar yfirmaður jafnréttismála og síðan menntamála og að lokum mennta- og æskulýðsmála.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Lifandilífslækur
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 295
Tilnefningar

Af þeim nýju bókum sem til mín hafa ratað núna um jólin er skáldsagan Lifandilífslækur eftir Bergsvein Birgisson. Hún er í einu orði sagt frábær bók, ein af bestu skáldsögum sem ég hef lesið á íslensku í mörg ár. Snilld. Kærar þakkir, Bergsveinn.

Sagan gerist árið 1785. Söguþráður er frásögn af ferð Magnúsar Árelíusar, hins hálfíslenska sendimanni rentukammersins danska til Íslands. Sá skal mæla upp Strandasýslu allt norður til Hornbjargs og rannsaka líðan mannfólksins, þess arma hóps „heilsulausra og útsveltra“ er enn skrimtir í landinu eftir Móðuharðindin, og analysera hvort ef til vill mætti flytja þjóðina til Danmerkur samkvæmt hugmynd sumra rentukammersmanna.

Hinn hárkolluprýddi Magnús ÁrelÍus er maður alls ókunnur eyjunni. Hann er fastur í hugmyndum upplýsingaraldar, skrifar frönskuskotið mál eins og í tísku er á þessum tíma, trúir staðfastlega á vísindin og þeirra empiríum og hefur í fórum sínum ný látúnsmælitæki sem hann hlakkar til að nota norður við heimskautsbaug. Draumur hans er að komast á Hornbjarg sem hann kallar Cap Nord.  Hann leggur í ferð sína með tveimur aðstoðarmönnum, sem eiga eftir að verða honum ómissandi, ekki aðeins til að lóssa hann um landið heldur líka til að draga hann útúr hans vísindaskýi og koma honum niður á jörðina í þessu arma landi. Ferðin hefst á Vatnsnesinu, því Magnús Árelíus hefur huga á að berja augum eyjuna Hvítserc eða Hvítserk sem hann hefur lesið um, en áttar sig fljótt á því að eyja þessi er aðeins fílslaga klettur skammt undan landi, hvítur af fugladriti. Þannig er um flest sem á leið hans verður, það verður öðruvísi en hann hefur heyrt áður eða ætlar, einkum og sér í lagi mannfólkið. Vatnsnesferðin verður reyndar áhrifaríkari í lok sögunnar en lesanda getur órað fyrir í byrjun.

Ferðinni norður Strandasyssel er síðan lýst, bæði í bréfaformi – um er að ræða skýrslubréf frá Magnúsi Árelíusi til yfirboðara síns – og síðan tekur alsjáandi sögumaður við og segir frá ferðinni eins og hún var í raun og veru. Því er skemmst frá að segja að Magnús Árelíus og kumpánar hans rata í ýmsar raunir, kynnast náttúru og mönnum mjög náið, konum og körlum, veðri og vindum, vegleysum og hafi, skriðum og björgum.

Hvers vegna skyldu allir lesa þessa bók?

  • Hún er spennandi. Lesandi hlakkar til að vita hvernig ferð Magnúsar Árelíusar lýkur og hvað út úr henni kemur;
  • Hún er skrifuð á yndislegu máli. Í því blandast hið dansk-frönsku-latneskuskotna kansellíismál, við mál innbyggjara. Sá lesandi (af Vatnsnesinu) sem hér skrifar hafði sérstaka ánægju af því að lesa orð ættuð úr bernsku sinni eins og fjegur og fjertíu, koddu, tönnur og höndur;
  • Hún er afburðagóð lýsing á Ströndunum og þeim sem byggðu þann vegalausa afkima Íslands á 18. öldinni, á því hvernig fólki tókst að skrimta af þrátt fyrir hin hræðilegu Móðuharðindi, hversu skammt vísindin duga á slíkum stað, hvernig náttúran er alltumlykjandi og tekur völdin af þeim sem halda að þeir viti allt og geti allt;
  • Persónusköpun er mjög góð, Magnús Árelíus sprettur upp ljóslifandi fyrir lesanda, alveg eins og kumpánar hans og fólk sem hann hittir og hefur samneyti við, jafnvel hinar smæstu persónur;
  • Hún er um innsta eðli mannsins, ótta, illsku, ágirnd, ást og ástríður, væntumþykju, aumingjaskap, svik, samhjálp, fórn. Því lengra norður sem Magnús Árelíus fer, því nær kemst hann eðli manns og náttúru og lengra frá sinni vísindaþráhyggju, fer að lifa hinu lifandi lífi sem kristallast í Lifandilífslæk;
  • Endirinn er geysilega óvæntur og snjall.

Niðurstaða

Kæri lesandi, flýttu þér að kaupa eða fá lánaða bókina Lifandilífslæk eftir Bergsvein Birgisson og njóttu þess að lesa hana. Hún er einstök.

Þórhildur Ólafsdóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda