Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína er doktor í íslenskum bókmenntum og sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur. Ólína er fyrrverandi skólameistari og alþingismaður.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Hið heilaga orð
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 378

Í gömlu ævintýri er ungur bóndasonur sendur af stað að leita einhvers og endurheimta – oft prinsessu sem lent hefur í tröllahöndum. Hann ferðast um refilstigu kynjaskóga og leysir ýmsar þrautir. Í nútímasögu eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur (f. 1974) leitar ungur maður systur sinnar sem fengið hefur fæðingarþunglyndi og týnst. Kynjaskógurinn er erlend heimsborg. Þrautirnar rafrænar og stafrænar. Meiri óvissa ríkir um afdrifin þar sem söguþráðurinn er flóknari og fyrirstöðurnar að verulegu leyti í höfðinu ekki síður en raunverunni. Þetta er því engin búkollusaga þó að byggingin styðjist við grunnstoðir ævintýra.

Hið heilaga orð er bók um knýjandi viðfangsefni í samtíma okkar, mátt orðsins og ritveröldina í netvæddum heimi sem vefst utan um tilveru okkar og samskipti líkt og utanáhangandi taugakerfi sem við jafnvel höfum ekki stjórn á. Hér er um að ræða all flókna úrvinnslu söguefnis með ýmsum frásagnarkimum. Undirniður verksins eru heimspekilegar og tilvistarlegar hugrenningar Sókratesar um áhrif ritmálsins á hugsun mannsins, yfirfærðar á nútímann. Unnið er með ýmsar kenningar, fornar og nýjar, tákn og gátur. Að því leyti reikar hugurinn til bóka á borð við Da Vinci-lykilinn (2003) eftir Dan Brown eða Veröld Soffíu (1991) eftir Jostein Gaarder.

Sagan hverfist um tilveru tveggja systkina. Hann er lesblindur en  fljúgandi fær á öðrum sviðum. Hún er hins vegar oflæs en stríðir við hömlur í samskiptum við fólk. Samt verður hún stjarna á samfélagsmiðlum sem veldur enn frekari brenglun á tilveru hennar og sambandi við aðra í veröld þar sem „lækin“ eru það sem skapar sjálfsmyndina. Systkinin eru eins og tvær hliðar á sama peningi. Þau fylla upp í mynd hvors annars, en skapa jafnframt ákveðinn átakaöxul sem drífur atburði áfram í hringiðu ástríðna og fróðleiksfýsnar, einsemdar og örvinglunar, leitar og flótta. Samhliða sögu þeirra fáum við innsýn líf mæðranna sem ala þau upp og samband þeirra við föðurinn. Þar er hliðarsaga sem einnig vekur spennu og felur í sér óvænta og napra afhjúpun undir bókarlok.

Hið heilaga orð er önnur bók Sigríðar Hagalín. Sú fyrsta, Eyland, kom út fyrir tveimur árum, dystópísk skáldsaga undir áhrifum af skortumræðunni sem varð hér á landi í kjölfar hrunsins. Það rit hlaut þegar góðar viðtökur og vakti umræður. Í nýju bókinni er Sigríður á öðrum slóðum. Augljóst er þó að enn liggur henni viðfangsefnið á hjarta enda er umfjöllunarefnið gripið beint úr samtíma okkar. Stíllinn er þjáll og fléttan hugvitsamleg.  Persónusköpun er trúverðug og vel af hendi leyst. Höfundur hefur gott lag á að lýsa tilfinningalífi persóna sinna, ekki síst barna og ungmenna, og draga fram samskipti og togstreitu sem varpa skörpu ljósi á það sem úrskeiðis getur farið í lífi fólks.

Auðfundið er við lesturinn að Sigríður Hagalín hefur fumlaust vald á rituðu máli og innsýn í það sem hún fjallar um. Við efnistökin beitir hún skáldlegu innsæi og næmi ásamt skörpu auga fréttamannsins – hvort tveggja ber vott um gott læsi höfundar á mannlíf og tilveru. Útkoman er spennandi og vel skrifuð bók sem erfitt er að leggja frá sér.

 

Niðurstaða

Grípandi saga um flókin álitaefni sem fjallað er um af næmi, hugmyndaauðgi og dýpt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda