Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína er doktor í íslenskum bókmenntum og sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur. Ólína er fyrrverandi skólameistari og alþingismaður.

Bók til umfjöllunar

Titill Hans Blær
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 335

Ekki hafa margar bækur verið ritaðar um kynusla eða translíf hér á landi, og fáar eigum við andhetjur. Þó hefur ásinn Loki lengi blasað við sem bókmenntaleg fyrirmynd að hvoru tveggja. Eiríkur Örn Norðdahl (f. 1978) hefur nú ráðist á þann garð með nýjustu skáldsögu sinni, Hans Blær. Samnefnt leikverk, undanfari bókarinnar, var sett á svið fyrr á árinu. Eiríkur Örn á að baki nokkur skáldverk og þýðingar. Meðal viðurkenninga sem hann hefur hlotið eru íslensku bókmenntaverðlaunin sem hann fékk fyrir skáldsöguna Illsku 2012.

Við fæðingu er barn úrskurðað stúlka og nefnt Ilmur. Með „gálkn“ milli fóta (míkrópenis eða makróklítoris) finnur Ilmur sig aldrei sem kynveru, heldur umbreytir sér í Hans Blæ með persónufornafnið hán. Í sögunni fylgjumst við með tilvistarkreppu Hans Blævar, leit að sjálfsmynd og viðurkenningu, og flótta undan afleiðingum eigin gjörða. Hán hefur sett upp meðferðarheimili fyrir fórnarlömb nauðgana en aðferðirnar orka vægast sagt tvímælis. Um leið halsar hán sér völl á samfélagsmiðlum og þrífst þar á ergi og óþola dægurumræðunnar. Hans Blær er „reitt og frjálst nettröll“ segir höfundurinn í kynningarviðtali. Þó virðist rýninum þessi persóna alls ekki frjáls heldur rígbundin í viðjar tortímandi sjálfsupphafningar og reiði.

Kynlaus, alkynja, kynskiptingur í siðlausu og kynlegu þjóðfélagi fellur Hans Blær hvergi inn heldur setur allt úr skorðum hvar sem kemur. Hán er Loki Laufeyjarson, vertinn í Kabarett, húsráðandinn í Rocky Horror, og getur brugðið sér í margra kvikinda líki. Hán er „tröll“ með ýmsum formerkjum – Gillz og Guðbergur í sömu andrá – statt á vígvelli stríðandi sjónarmiða en er um leið vígvöllurinn sjálfur. Auk annars er Hans Blær táknmynd margs þess versta sem samfélagið býður upp á, manngerð útfærsla á kommentakerfum samfélagsmiðlanna.

Sagan er usli í margvíslegum skilningi. Höfundurinn leggur sig fram um að flækja og brjóta upp vanaviðhorf, siðferðisgildi, lesaðferðir og málnotkun. Liður í þessu, að því er virðist, er sérviskuleg og órökrétt beyging á persónufornafninu „hán“ sem gerir notkun þess ruglingslega, ásamt linnulausum þérunum á einni sögupersónunni, eins og til þess að láta lesendur hafa fyrir því að fóta sig í textanum. Þetta gengur svo langt að jafnvel höfundur sjálfur fellur á eigin bragð (s. 21, 97, 259). Stíllinn er gassafenginn og flæðandi, einnig húmorískur á köflum. Orðnotkun oft skemmtilega nýstárleg en stundum svo ýkt og ágeng að það er eins og höfundurinn vilji sjálfur „trolla“ lesendur sína. Niðurlag sögunnar kemur á óvart en er þó í samræmi við eðli aðalpersónunnar ef að er gáð.

Um leið og sagan ögrar því viðtekna máir hún út mörk, dregur fram mótsagnarkennda þætti, afhjúpar veikleika, siðleysi og rugl sem eiga sér beinharðar fyrirmyndir eða fordæmi í samtímanum.  Að því leyti tekst höfundi vel upp. Samt er eitthvað sem truflar – eitthvað fleira en ágengur stíll og óráðsía með persónufornöfn. Sennilega er það  afstaðan til sögupersónanna, einkum aðalpersónunnar, sem takmörkuð umhyggja er borin fyrir. Með efnistökum og orðfæri er nefnilega þjösnast á andhetjunni Hans Blævi og lítt skeytt um klisju- og fordómahættuna sem felst í mannlýsingunni og tengingu hennar við fólk með kynáttunarvanda.

Segja má að heimskan og illskan sem höfundi hafa verið hugleiknar í fyrri bókum taki hér of mikið rými. Gamanið er grátt og gæskan víðsfjarri.

Niðurstaða

Sagan er usli – gráglettinn og gassafenginn. Áreitandi samfélagsádrepa.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda