Gagnrýni / Bryndís Silja Pálmadóttir

Kafað ofan í hvers­dags­fantasíur

Bryndís Silja Pálmadóttir

Bryndís Silja er blaðamaður á Fréttablaðinu.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:
Sjá nánar hér

Bók til umfjöllunar

Titill Keisaramörgæsir
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 156

Í Keisaramörgæsum, eftir Þórdísi Helgadóttur, er að finna sextán sjálfstæðar smásögur sem allar eiga það þó sameiginlegt að brugðið er á leik á sögusviði íslensks samtíma.

Þórdís er enginn nýgræðingur þó að Keisaramörgæsir sé hennar fyrsta bók og áður hafa birst eftir hana örsögur, smásögur, þýðingar og ljóð. Í smásögunum sextán beitir Þórdís töfraraunsæi og teflir saman raunveruleika og ímyndunarafli með kunnuglegum furðum.

Sögur verksins eru ólíkar og mislangar, sumar einungis ein til tvær síður, persónur nafnlausar og lesandinn þarf að geta í fjölmargar eyður. Í öðrum sögum er kafað dýpra undir yfirborðið og lesandinn fær innsýn í hugarheim einkaþjálfara í hjúskaparvandræðum, sér geðræn vandamál móður með augum ungrar dóttur hennar eða kynnist skuggahliðum íslensks næturlífs.

Sögurnar gerast flestar á okkar tímum og fjalla um samtímann á einn eða annan hátt. Þrátt fyrir að leiksvið verksins sé hversdagurinn láta ýmsar kynjaverur á sér kræla. Tröll, ísbirnir, jafnvel djöfullinn sjálfur, renna snyrtilega saman við daglegt líf sögupersóna svo þær virðast fremur kunnuglegar.

Tilgerðarlaus frásagnarháttur Þórdísar rennur jafnan áreynslulaust áfram. Heimilis tröll, tímavélar og hrár kjúklingur vekja athygli lesanda, þannig að smáatriðin skipta í raun mestu máli. Þórdís leikur sér á þann hátt að lesandanum, til dæmis með því að særa blygðunarkennd hans með litlum hlutum sem stinga í stúf við litlausan hversdaginn.

Smáatriðin notar hún á sama tíma til að fjalla um hin ýmsu tabú samtímans. Geðræn vandamál, kvíði, samviskubit vegna loftslagsbreytinga og heimilisofbeldi fléttast inn í textann í krafti fantasíunnar. Stutt er á milli raunveruleika og ímyndunar í amstri hversdagsins þar sem allt getur gerst. Ört er skipt á milli sögusviðs og persóna og sögurnar eru jafn ólíkar og þær eru margar.

Margbreytileiki smásagnanna kann þó að vera tvíeggjað sverð, því þær skipta á köflum svo hratt um takt að lesandinn hefur varla undan við að fylgja höfundi eftir. Til þess er vitaskuld leikur smásögunnar gerður, en um leið eru nokkrar sögurnar töluvert sterkari en aðrar, söguþráður þeirra þéttari og dýptin meiri.

Þannig getur lesandinn misst taktinn í lestrinum þegar texti sumra sagnanna verður flatur, eða flýgur of hátt. Mögulega hefði verið hægt að flysja frekar úr verkinu og gefa veigameiri sögum aukið vægi.

Í heildina er Keisaramörgæsir þó áhugaverður óður til samtímans, eftirminnilegt marglaga verk með fjölbreyttum og lifandi sögum sem enduróma áhyggjur samtímans. Þó að sumar sögurnar séu innihaldsríkari en aðrar er áhugi lesanda að jafnaði vakinn að nýju þannig að heildarmynd verksins helst sterk allt til loka.

Niðurstaða

Áhugavert smásagnasagn um samtímann, en sögurnar eru misgóðar.

Bryndís Silja Pálmadóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda