Gagnrýni / Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Höfundarins heiðvirða iðja

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína er doktor í íslenskum bókmenntum og sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur. Ólína er fyrrverandi skólameistari og alþingismaður.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Vammfirring
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 80

Þórarinn Eldjárn (f. 1949) er meistari í meðferð orða. Hann leikur sér með þau, kryfur þau, setur í nýtt samhengi, smíðar ný úr gömlum, rímar og stuðlar. Það er heiðvirð íþrótt og lastalaus – réttlætanleg sjálfrar sín vegna. Svo einföld eru skilaboð nýjustu ljóðabókar hans eins og titillinn gefur til kynna.

Vammfirring er hugtak sem ekki finnst í íslenskri orðabók. Vamm getur verið galli, löstur eða smán – firring er það sem tekið hefur verið brott sbr. vitfirring, hljóðfirring. Í ljóði sem ber sama heiti og bókin sjálf segir höfundur um málsmíð sína að hún sé ...

 

... sífelldlega

og sannlega vammi firrð.

 

Ljóðin hnitast ekki um tiltekið viðfangsefni. Bókin er því ekki eitt verk heldur nokkur, skiptist í sjö hluta sem eiga fátt sameiginlegt annað en höfund sinn og eru ýmist í bundnu máli eða lausu. Þátturinn Nýjasta sagan af Húsavíkur-Jóni kemur svolítið á skjön við innihaldið að öðru leyti, þó að vel sé ort. Efnistökin minna á Disney-rímurnar frægu þó að bragarháttur sé annar. Íslensk fyndni nefnist einn þátturinn, kímnar örsögur í lausu máli sem kalla fram bros, en eru hálf samhengislausar við ljóðin framar.

Svo tamt er Þórarni að eiga við orð, hnoða þau og móta sem efnivið í nýja sköpun að stundum er eins og viðureignin við formið ráði ferðinni – teymi höfund áfram viljugan nauðugan. Sum ljóðanna í þessari bók vekja slíkar hugrenningar (Dalsól, Marbendill), og stundum því líkast sem skáldið láti berast lengra en það kannski ætlaði (Torrek o.fl.).

Sú hugsun sækir af og til á lesandann að höfundi liggi ekki nógu mikið á hjarta. Hann sé einfaldlega að fást við iðjuna sem lætur honum best, frekar af hagleik en ástríðu. Og þó. Í þættinum Varningur verða einfaldir nytjahlutir og lífrænn úrgangur táknrænir fyrir líf mannsins og hlutverk í þessum heimi. Margt meistaralegt þar. Víðar í bókinni eru fagurlega smíðaðar gersemar þar sem saman fara tilfinning, lífssýn og fegurð í afar hnitmiðuðu formi (Gapað, Áð áður o.fl.). Ljóðið ÓE, sem er eftirmæli um systur skáldsins, ratar inn að hjartastað. Mark nefnist önnur falleg smíði þar sem segir:

 

Gnauðar og gólar

þverflauta ryðgandi röra.

 

Ekkert net

fær við marki spornað.

 

Ekkert net

til að veiða vindinn.

 

Tíminn liðinn

vatnið þornað.

 

Myndmálinu er víða við brugðið, eins og í Skyndilega allt svo skýrt þar sem „húsin stilla sér upp í einfalda röð“ í sólskininu og skerpa birtunnar á rúðunum veitir bæði útsýn og innsýn. Þá er kímnin aldrei langt undan og mörg ljóðin smellin og skemmtilega þaulhugsuð (Árstíðir, Lýðræði).

Vammfirring er hógvært réttnefni ljóðabókar sem þrátt fyrir sundurlausa heildarmynd geymir margar fagrar gersemar sem hver og ein stendur fyrir sínu. Þórarinn gengur hér fram af sama hikleysi og oft áður í fyrri bókum og á eigin forsendum:

 

Ekkert ef

enn er vor.

Taka skref

skilja eftir spor.

Niðurstaða

Margar gersemar í þessari kistu. Sumar ljóma

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda