Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína er doktor í íslenskum bókmenntum og sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur. Ólína er fyrrverandi skólameistari og alþingismaður.

Bók til umfjöllunar

Titill Haustaugu
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 59
Tilnefningar

Sannarlega er það bókmenntaviðburður þegar Hannes Pétursson (f. 1931) kemur með ljóðabók, ekki síst eftir tólf ára hlé. Nýjasta verk hans, Haustaugu, er þess vegna „hvalreki öllum þeim sem unna ljóðlist og íslenskri tungu“ eins og segir réttilega aftan á bókarápu.

Hannes er ástsælt og verðlaunað skáld sem frá árinu 1955 hefur gefið út fimmtán frumsamdar ljóðabækur auk fræðibóka, smásagna, ferðaþátta og ljóðaþýðinga. Meðal viðurkenninga sem honum hafa hlotnast eru íslensku bókmenntaverðlaunin sem hann hlaut fyrir ljóðabókina Eldhyl 1993.

Ljóð Hannesar eru hógvær í framsetningu, myndrík og laus í formi. Ekki verður sagt að þau séu óbundin, því stuðlasetning, vísir að innrími og háttbundin hrynjandi eru sjaldnast langt undan. Í þessari bók eins og jafnan áður talar ljóðmælandinn í trúnaði til lesanda síns, hóglega og hæglega. Opnar fyrir honum hugskot sitt og brjóst, leiðir hann þar inn á lendur hugrenninga sinna, minninga og tilfinninga.

Eins og titill bókarinnar gefur til kynna er haust í lífi skáldsins. Ljóðmælandinn lítur yfir farinn veg og fram á veg komandi kynslóða um leið og hann býr sig undir eigin ævilok. Hann blessar gengnar slóðir og þakkar lifuð ár – ekki laus við ugg um framtíð jarðarbarna.

Hannes Pétursson er þekktur fyrir að slá þjóðlegan tón í ljóðagerð sinni. Hefðir, sagnir og menningararfur vaka einatt í ljóðmálinu og stundum má greina heimspekilegan undirtón. Í þessari ljóðabók fer minna fyrir vísunum til þjóðmenningar en oft áður. Umhyggja fyrir menningunni, tungunni, landinu og náttúrunni leynir sér þó ekki. Í ljóðinu Spurnir, lagðar fyrir vindana, vill hann efla herhvöt fyrir tungumálið:

 

Herjötnar tungunnar

hvasseygir, langsýnir, vökulir.

Sárt sakna ég þeirra. (10)

 

Í mörgum ljóðanna er kallað eftir árvekni og alúð fyrir umhverfinu, og varað við tortímandi afleiðingum mannlegrar breytni og hroka. Þó er enginn prédikunartónn. Ljóðið Úr þulu næturgolunnar birtir geigvænlega framtíðarsýn. Þar andar næturgolan skilaboðum sínum „gegnum opinn haustgluggann – og ég læt sem ég sofi“ (57) líkt og segja má um mannkyn allt.

Þrátt fyrir beyg og feigðargrun er kyrrð í ljóðum þessarar bókar. Sátt, jafnvel vísir að raunsæislegri uppgjöf manns sem reynslan hefur sorfið:

 

...

ég, hinn efagjarni

sá sem ungur treysti

alhugað

dýrð ljómans yfir fjárhirðunum

og leiðsögn stjörnunnar háu

 

er nú alls kostar

undir það búinn

að mölflugur geri sér hreiður

í helgum fyrirheitum. (58)

 

Samtímis skynjar lesandinn glöggt – í ljóðum á borð við Stakar stundir hjá gröfum, Á þessum kyrru dægrum og Samfylgd – tregablandið þakklæti fyrir gjafir lífsins:

 

Og vinarhugur er sem gras

gróandi gras, döggvað

undir ungum iljum. (34)

 

Þrátt fyrir haust og húmtilfinningu skáldsins, sem birtist í titli bókarinnar, er einhver sólbjört fegurð í anda ljóðanna. Því þó að laufin falli og hágróskan sé á niðurleið eins og segir á einum stað þá ...

 

... situr einhvers staðar

innra með mér

lengst, lengst innra með mér

 

söngfugl í björtum vorskógi ... (35)

 

Ætli það sé ekki sá söngur sem lesandinn skynjar og ljóðin sjálf vorskógurinn þaðan sem ómurinn berst, þó að heiti bókarinnar beri fölva haustsins.

Niðurstaða

Bókin er yndisleg perla sem sannarlega er fengur fyrir unnendur íslenskra ljóða.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda