Gagnrýni / Ágúst Borgþór Sverrisson

Handanheimur mætir raunheimi

Ágúst Borgþór Sverrisson

Ágúst Borgþór er blaðamaður á DV.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Smásögur að handan
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir hefur undanfarin ár verið viðloðandi bókmenntalífið með smásagnabirtingum og þýðingum úr rússnesku, til dæmis á dæmisögum Tolstojs. Ingibjörg stundar núna doktorsnám í þýðingarfræðum.

Fyrir nokkrum mánuðum sendi Ingibjörg frá sér smásagnasafnið Smásögur að handan. Það er alltaf gaman þegar smásögur í safni hafa sameiginlegt þema, meðal annars vegna þess að það gefur bókunum heildarsvip. Eins og titillinn gefur til kynna kemur hér framhaldslíf til við sögu en einnig er með margvíslegum öðrum hætti leikið sér með samspil raunheims og handanheims. Í sumum sögunum skín í gegn þekking á sagnfræði og lista- og bókmenntasögu, sem og áhugi höfundar á ýmsum málefnum, allt frá dulspeki til náttúruverndar.

Besta saga bókarinnar heitir Húsið í eilífðinni, ljómandi skýr og falleg saga með einfaldri og beinskeyttri hugmynd. Stíllinn á þeirri sögu er í senn einfaldur og ljóðrænn. Saga um Drakúla greifa sem dúkkar upp í reykvískum tíma og harmræn örlög hans er einnig vel hugsuð og frumleg.

Því miður tekst ekki alltaf svona vel til. Sumar sögurnar hafa til að bera hugmyndir sem gaman er að velta fyrir sér að loknum lestri þeirra en lesturinn sjálfur er ekki eins ánægjulegur. Eitt dæmi er sagan Bókasafnarinn þar sem tekist er á við þá heillandi hugmynd að bækur sem hafa glatast, til dæmis í bruna, eigi sér tilvist engu að síður. Í sömu sögu grefur bókasafnarinn völundarhús undir Grímsstaðarholtið í Vesturbænum og útbýr þar hið ógnarstóra safn hinna glötuðu bóka. Nú er það svo að í raunveruleikanum kæmist enginn upp með slíkar aðgerðir en í fantasíunni er allt leyfilegt. En þegar blaðamenn taka að forvitnast um neðanjarðarbókasafnið er hugmyndin komin út í vitleysu. Í raunheimi fara blaðamenn ekki að spyrja um risastórt neðanjarðarbókasafn undir Grímsstaðarholtinu vegna þess að slík framkvæmd gæti aldrei orðið, hún yrði stöðvuð í fæðingu.

Víða ber á slíkum árekstrum fantasíu og raunsæis. Það er ekkert að því að fara með handanheim inn í raunheiminn en að taka um leið skynsemina úr raunheiminum óháð handanheiminum er barnaskapur sem spillir mjög lestraránægjunni og kemur í veg fyrir að lesandinn gangist fantasíunni á hönd. Annað dæmi um þetta er fyrsta saga bókarinnar, Morðsaga að handan, saga um baráttu myrtrar konu fyrir réttlæti (góð hugmynd!). Rannsóknarlögreglumaðurinn í þeirri sögu er fyrrverandi ljóðskáld en af því að ljóðin hans seldust svo illa þá ákvað hann bara að vippa sér í lögregluna og verða rannsóknarlögreglumaður! Eins og það sé ekkert mál, eins og rannsóknarlögreglustarf sé bara auðveld leið út úr því öngstræti að ná ekki frama sem ljóðskáld.

Ein sagan greinir frá roskinni konu hverrar börn telja vera komna með Alzheimer og vilja koma henni á hjúkrunarheimili, að sögn söguraddarinnar eingöngu til þess að komast yfir arfinn. Nú er ég ekki löglærður maður en síðast þegar ég vissi tæmist erfingjum arfur við að sá er þeir erfa deyr, ekki við það að viðkomandi fari á hjúkrunarheimili!

Í um margt áhugaverðri sögu sem ber heitið Dagurinn með Leonardo gengur snillingurinn Leonardo Da Vinci aftur í nútímanum og vingast við 12 ára stelpu á Selfossi með Asperger. Da Vinci segir stúlkunni meðal annars frá sögu eftir Oscar Wilde en sá maður var ekki uppi fyrr en nokkrum öldum á eftir Da Vinci.

Þessi furðulega markleysa sem birtist víða á síðum bókarinnar gefur sögunum næfan (naív) blæ sem stingur í stúf við það yfirbragð þekkingar og hámenningar sem annars er á sögunum.

Alla orku þarf að beisla og líka hugmyndaflugið. Skynsemin hefði mátt beisla hugmyndaflugið betur við ritun þessara smásagna.

Niðurstaða

Í bókinni er þó að finna góðar sögur og góða söguhluta. Bókin er falleg í útliti og kápa smekklega hönnuð. Þetta framtak er dæmi um fjölbreytnina í íslenskri bókaútgáfu sem er í mótsögn við minnkandi bóklestur og bóksölu.

Ágúst Borgþór Sverrisson

Fleiri umsagnir gagnrýnanda