Gagnrýni / Brynhildur Björnsdóttir

Fluga fær flugu í höfuðið

Brynhildur Björnsdóttir

Brynhildur skrifar í Fólk og sérblöð í Fréttablaðinu.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 72
Tilnefningar

Flugur eiga sér ákveðna hefð í íslenskum bókmenntum, einkum þó fyrir börn. Margir muna eftir Mola litla flugustrák úr bókaröð eftir Ragnar Lár sem kom út á árunum 1968-1975 og voru fyrstu vísarnir að íslenskum myndasögum. Þá skrifaði Bryndís Björgvinsdóttir bókina Flugan sem stöðvaði stríðið þar sem má finna heimspekilegar vangaveltur um stríð fyrir börn og nú verður fluga aftur að farvegi fyrir heimspekilegar hugleiðingar í Sögunni um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins eftir þau Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring sem hófu farsælt og vonandi langvinnt samstarf í fyrra með bókinni Fuglar, stórskemmtilegri náttúrufræðiskemmtibók sem var ætluð allri fjölskyldunni og tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017. Þar drógu þau fram helstu sérkenni fuglanna í máli og myndum með góðum skammti af kímnigáfu og laumuðu þannig heilmiklum fuglafróðleik með.

Í bókinni Skarphéðinn Dungal er sjónum beint að flugum en hún er þó ekki náttúrufræðilegs eðlis heldur meira í ætt við heimspeki,  flugan Skarphéðinn er notuð sem táknmynd þess að víkka sjóndeildarhringinn og sjá fleiri möguleika en þá sem nærumhverfið býður upp á, hvort sem það er í bókstaflegri merkingu eða sem myndhverfing fyrir hugarástand. Í Háborginni sem spratt upp á volgu hrossataði skorar Skarphéðinn Dungal hugmyndir samflugna sinna um alheiminn á hólm og er gerður útlægur fyrir vikið en einmitt það gefur honum tækifæri til að kynnast heiminum, sannreyna kenningar sínar og koma aftur reynslunni ríkari.

Myndir og umbrot er einstaklega skemmtilegt og leikur við textann og með honum. Litavalið er áberandi, í raun það mest áberandi sem völ er á en sagt er að svart letur á appelsínugulum grunni sé með því mest grípandi sem augað nemur og hæfir það vel þrautseigri flugu.

Sagan sögð í ljóði sem gerir hana enn skemmtilegri að lesa upphátt en einnig er auðvelt tileinka sér setningar og speki þegar sett er fram í bundnu máli.

Niðurstaða

Sagan af Skarphéðni Dungal er skemmtileg hugvelta um sjónarhorn, sjónarrandir og hrossatað. 

Brynhildur Björnsdóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda