Gagnrýni / Maríanna Clara Lúthersdóttir

FLÓÐ SEM ENGU EYRIR

Maríanna Clara Lúthersdóttir

Maríanna Clara er bókmenntafræðingur og leikari við Borgarleikhúsið. Hún er fyrrverandi starfskona Bókabúðar Máls og menningar á Laugavegi 18.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:
Sjá nánar hér

Bók til umfjöllunar

Titill Syndaflóð
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 447

Syndaflóð er óvægin bók, frásögnin hröð, miskunnarlaus og afskaplega spennandi. Sagan hefst þegar Malcolm nokkur Benke finnst myrtur í hægindastól á heimili sínu og á litla fingri er hann með giftingarhring látinnar dóttur sinnar. Hringurinn reynist vera lykillinn að lausn málsins og tenging milli þessa glæpar og annarra gjörólíkra glæpa sem verða á vegi rannsóknarlögreglumannanna Alex Recht og Fredriku Bergman. Meðfram frásögninni af rannsókn þeirra fær lesandinn innsýn í líf annarra persóna – þar á meðal fjölskyldu sem hefur verið lokuð inni í afskekktu húsi gegn vilja sínum og eftir því sem sögunni vindur fram verða tengslin milli þessara ólíku söguþráða skýrari og jafnframt óhugnanlegri.

Höfundurinn, hin sænska Kristina Ohlsson, er stjórmálafræðingur að mennt og er ferilskrá hennar ansi glæsileg. Hún starfaði um hríð hjá sænsku öryggislögreglunni, í utanríkisráðuneytinu og sem yfirmaður hryðjuverkasviðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Þá vann hún sem sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda. Fyrstu bækurnar skrifaði Ohlsson í frítíma sínum en frá árinu 2012 hefur hún alfarið helgað sig skriftum. Auk bókaraðarinnar um Alex Recht og Fredriku Bergman hefur Ohlsson skrifað glæpasögur um Martin Benner og spennubækur fyrir börn og unglinga. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og oft verið tilnefnd til að sænsku glæpasagnaverðlaunanna. Syndaflóð er sjötta bók Ohlsson um Recht og Bergman og í eftirmála gefur höfundur í skyn að hún verði jafnframt sú síðasta.

Syndaflóð er sjálfstætt framhald Davíðsstjarna sem kom út árið 2013 og í íslenskri þýðingu tveimur árum síðar. Í Syndaflóði er mikið vísað í fyrri bækur flokksins og þá sérstaklega Davíðsstjörnur.  Persónur sem tengjast eldri málum koma við sögu en fyrst og fremst skipta máli þau áhrif sem atburðir fyrri bóka hafa haft á aðalpersónurnar. Alex Recht, Fredrika Bergman og Peter Rydh (fyrrum lögrelgumaður) eru mörkuð af því lífi sem þau hafa lifað, missi sínum og sorgum. Ohlsson er ekki mikið fyrir að endurtaka sig þegar kemur að persónusköpun – sem er bæði kostur og galli. Fyrir þann lesanda sem þekkir bækurnar heldur hún áfram að bæta við persónusköpunina í stað þess að vera sífellt að útskýra þær á nýjan leik. En fyrir þann sem kemur nýr að sjöttu bókinni í flokknum er ekki alveg eins mikið kjöt á beinunum þegar kemur að innra lífi persónanna. Þetta skiptir máli þar sem gjörðir þeirra hér eru að mörgu leyti réttlættar eða útskýrðar með atburðum fortíðar.

Ohlsson er raunar ansi glúrin á sviði persónusköpunar. Í viðtali við Mystery Tribune árið 2012 segist hún hafa viljað brjóta upp skandinavíska normið þegar kom að rannsóknarlögreglumönnum. Hún vann í fimm ár með lögreglunni og sá t.d. aldrei lögreglumann undir áhrifum áfengis – svo hana langaði að skapa lögreglumann sem ætti ekki við áfengisvandamál að stríða, sem elskaði konuna sína og ætti í ágætu sambandi við börnin sín – Alex Recht syndir því aldeilis á móti straumnum í skandinavískum rökkurbókmenntum.

Þrátt fyrir að hafa upphaflega skapað „hamingjusaman“ lögreglumann til höfuðs glæpasagnahefðinni væri þó synd að segja að lífið hjá Alex Recht og samstarfsfélögum hans sé einhver dans á rósum. Ohlsson er gríðarlega óvægin við persónur sínar – þegar hér er komið sögu hefur Recht t.d. misst konu sína (er reyndar búinn að finna ástina aftur) og eiginmaður Bergman er með krabbamein. Þessi harka í garð persóna gerir það að verkum að lesandinn getur aldrei andað rólega. Ólíkt mörgum öðrum glæpasagnahöfundum virðist Ohlsson ekkert heilagt í þessum þessum efnum. Hér er ekki hægt að treysta á að Matlock eða Derrick standi eftir heilir á húfi að leik loknum og þurfi aðeins að skella jakkafötunum í hreinsun. Lesandinn hefur sterklega á tilfinningunni að Ohlsson gæti hæglega drepið hverja sem er af aðalpersónum sínum. Án þess að vilja fjölyrða um endalok þessarar spennandi bókar er hætt við að þeir lesendur sem hafa fylgst með bókaflokknum frá byrjun verði fyrir ákveðnu áfalli við lausn gátunnar hér.

Margir þræðir halda Syndaflóði saman og við upphaf lesturs á lesandinn fullt í fangi með að henda reiður á þeim öllum. Ekki færri en átta sjónarhorn koma við sögu og í hverju og einu eru fjölmargar persónur kynntar til sögunnar. Þetta er því ekki bók sem hentar vel til lesturs í smáskömmtum – en til þess er hún hvort eð er of spennandi svo það kemur ekki að sök. Þegar komið er lengra inn í frásögnina og tengslin milli frásagnanna skýrast verður auðveldara að halda þræði. Um leið eykst óhugnaðurinn því lesandanum verður ljóst í hvað stefnir í öllum tilvikum.

Ohlsson er enginn sérstakur stílisti en skrifar þó ágætan texta, hraðan, skýran og áhrifaríkan sem Nanna B. Þórsdóttir þýðir ljómandi vel.

Niðurstaða

Aðall Ohlsson er sem fyrr afskaplega vel uppbyggð saga, góð persónusköpun og mikil spenna – sem stafar ekki síst af því að lesandinn veit að Ohlsson veigrar sér ekki við að taka erfiðar ákvarðanir þegar kemur að lífi og heilsu aðalsöguhetjanna. Það er engu að treysta í Syndaflóði.

Maríanna Clara Lúthersdóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda