Gagnrýni / Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Existinsíalísk tjáning og erótískur undirtónn

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína er doktor í íslenskum bókmenntum og sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur. Ólína er fyrrverandi skólameistari og alþingismaður.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Úrval ljóða 1982-2012
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 247

Út er komið safn þýddra úrvalsljóða eftir dönsku skáldkonuna Piu Tafdrup (f. 1952) í þýðingu Sigríðar Helgu Sverrisdóttur (f. 1964) ljóðskálds og þýðanda. Bókin nefnist einfaldlega Úrval ljóða. Þetta er tvímála verk með 80 ljóðum sem spanna mestallan höfundarferil Tafdrups á tímabilinu 1982-2012, frá hennar fyrstu bók Når der går hul på en engel (Þegar engill brestur) og þar til Salamandersol (Salamöndrusól) kom út fyrir sjö árum.

Þegar Pia Tafdrup haslaði sér fyrst ritvöll, við upphaf níunda áratugarins, skipaði hún sér óðara í framlínu nýrrar kynslóðar ungskálda sem á þeim tíma var tekin að endurlífga norræna ljóðagerð og gefa henni byr undir vængi svo eftir var tekið. Hér á Íslandi höfðu „listaskáldin vondu“ kveðið sér eftirminnilega hljóðs fáum árum áður og annarsstaðar á Norðurlöndum  var ljóðið einnig að ganga í endurnýjun lífdaga. Tafdrup varð fljótlega afkastamikill höfundur og verk hennar vöktu eftirtekt frá fyrstu tíð.

Umfjöllunarefni Tafdrups er gjarnan ástin og samskipti elskenda. Líkaminn er henni hugstætt yrkisefni, þær kenndir sem hann meðtekur og veitir,  mörkin milli tveggja líkama og samruni þeirra sömuleiðis.

 

Að vera fiskur með þér í vatinu
er þreytandi fyrir ugga mína
en straumurinn er góður
fyrir hamingju okkar
og málmkenndur bjarmi augna þinna
er svo fagur
þegar þau sjá mig hér
milli silfurgrárra fjallseggja steinanna
þar sem ég metek allt það sem streymir frá þér
í bylgjum. (Að vera fiskur s. 35)

 

Þetta ljóð sem fyrst birtist í ljóðabókinni Intet fang (Ekkert tak) miðlar í senn nánd og fjarlægð milli tveggja. Hér, líkt og í fleiri ljóðum Tafdrups, er fiskurinn ríkjandi tákn og tengist ástinni með ýmsum hætti. Ljóð Tafdrups eru yfirleitt exístensíalísk og oftar en ekki hafa þau erótískan undirtón. Þau höfða sterkt til skynhrifa eins og lyktar, snertingar og sjónar um leið og þau vekja lesandann til hugsana um sambandið milli lífs og dauða, haturs og ástar, þagnar og tjáningar.

Í þessari bók er ljóðunum stillt upp á frummáli og í þýðingu, hlið við hlið. Á vinstri síðu standa þau á dönsku, á þeirri vinstri er íslenska þýðingin. Lesandinn getur því borið textana saman. Í heild sinni virðist þýðingin prýðilega af hendi leyst þó að sérvitur ritrýnir kunni að hnjóta um eitt og eitt orð og velta fyrir sér öðrum þýðingarmöguleikum. Þýðandinn hefur augljóslega lagt sig fram um að virða allt í senn, orðfæri og hugsun höfundarins sem og formgerð ljóðsins og hrynjandi til að halda í hljómtöfra þess og áru. Verður ekki betur séð en að vel hafi tekist til í langflestum tilvikum.

Tafdrup á að baki fjölmörg skáldverk, einkum ljóðabækur, og hefur hlotið margháttaðar viðurkenningar og verðlaun. Hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1999 fyrir ljóðabók sína Dronningeporten (Drottningarhliðið) og norrænuverðlaun Sænsku akademíunnar (Det Svensk Akademis Nordiska Pris) hlotnuðust henni 2006.  Bækur hennar hafa verið þýddar á um 30 tungumál en einungis fá af verkum hennar hafa verið þýdd á íslensku. Má því segja að tímabært hafi verið að kynna höfundarverk Tafdrups fyrir íslenskum ljóðaunnendum líkt og Dansk-íslenska félagið gerir nú með þessu framtaki sem fjármagnað er af Norrænu ráðherranefndinni.

Niðurstaða

Gott framtak og kærkomin viðbót í flóru þýddra skáldverka á Íslandi.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda