Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína er doktor í íslenskum bókmenntum og sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur. Ólína er fyrrverandi skólameistari og alþingismaður.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Til þeirra sem málið varðar
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 95

Ég veit ekki með önnur ljóð.
Ég veit bara að þetta ljóð
er opið hús með gluggum
sem speglast í vötnum
þar sem draumarnir flæða. (39)

 

Segja má að þetta ljóð í nýútkominni bók Einars Más Guðmundssonar, Til þeirra sem málið varðar, slái tóninn fyrir hljómfallið sem stígur upp af bókinni. Í þeim ljóðagarði er margt yndið á seyði: Einlægni, myndræn framsetning, samþætting andstæðna, tilvistarlegar hugrenningar og hljóðlátur trúnaður.

„Ljóðið ratar til sinna“ sagði Þorsteinn frá Hamri eitt sinn, sem fleygt varð. Ekki er ólíklegt að sama hugsun hafi búið í huga Einars Más Guðmundssonar er hann valdi bókinni heiti. Með þessum titli afmarkar hann viðtökuhópinn og undirstrikar um leið trúnað sinn við lesandann – ljóðunnandann sem hann treystir fyrir hugrenningum sínum.

Einar Már Guðmundsson (f. 1954) hefur látið frá sér fjölda skáldverka sem þýdd hafa verið á mörg tungumál og hlotið margvíslegar viðurkenningar.  Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hlaut hann 1995 fyrir skáldsöguna Englar alheimsins sem seinna var kvikmynduð af Friðriki Þór Friðrikssyni. Íslensku bókmenntaverðlaunin fékk hann 2015 fyrir Hundadaga svo fátt eitt sé nefnt.

Í þessari nýju bók er Einar Már á kunnuglegum slóðum. Ljóðin varða flesta þætti mannlegrar tilveru: Tilfinningar og upplifanir af ýmsum toga, ástina, óttann, fegurðina og efann. Einar Már hefur sérstakt lag á því að samtvinna ólíka mynd- og menningarheima. Í ljóðum hans dansa saman  háfleygni og látleysi, fegurð og ljótleiki, efi og vissa, ótti og öryggi. Samofnar skapa mótsagnirnar nýjan sannleika og veita nýja sýn. Jafnhliða má segja að gantast sé við bókmenntahefðina með vísunum í gengna snillinga:

 

[--]

Það er langt síðan ég hef ort ljóð
en stutt síðan konur fengu kosningarétt
og tíminn er einsog vatnið,
dropinn sem holar steininn. 

[--]

Vá!
Það er árið
þrjúþúsundþrjátíuogeitthvað
og ég er löngu dauður þegar ég vakna.

Eða stend ég úti í tungsljósi,
stend ég úti við skóg?
Ég veit ekkert hverjir þetta eru,
en stígarnir liggja í allar áttir
einsog línur í ljóði
atvik í sögu
orð á blaði. (48-49)

 

Við lestur þessa ljóðs komu upp í hugann ummæli höfundarins sjálfs í nýlegu viðtali er hann sagði að í skáldskap þurfi höfundar að lifa á öllum tímum. Ljóð bókarinnar hafa mörg hver margræða tímatilvísun – þau eru samtal við hefðina um leið og þau marka sín eigin spor hér og nú, skráning tilvistarlegra viðfangsefna og hugrenninga í nútímanum.

Þegar Einar Már kom fyrst fram á sjónarsviðið sem ljóðskáld með bók sinni Er einhver í kórónafötum hér inni? (1980) sló hann þegar sérstæðan og hnyttinn tón, að sumu leyti með sannfæringarkrafti og yfirlýsingagleði en einnig með samblandi af húmor og viðkvæmni. Í seinni tíð hefur  kaldhæðnin látið undan síga fyrir aukinni einlægni sem verður æ ríkari þáttur í ljóðum Einars Más  og er sem fyrr segir auðsæ í þessari bók. Hnyttnin er þó sjaldan langt undan og tengist náið leiknum með merkingarvik og andstæður:

 

Ég sigli út á reginhaf,
kem svo í land
og segist hafa farist.

 

Ég veit ekki alveg
hvernig tryggingarnar taka því,
en þá get ég skrifað þessi
orð að handan
og talað við ykkur sem fóruð
án þess að kveðja
og ykkur sem kvödduð
án þess að fara. (s 75)

Niðurstaða

Margræð bók. Konfekt fyrir ljóðaunnendur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda