Gagnrýni / Kjartan Valgarðsson

Berskjaldaður styrkur

Kjartan Valgarðsson

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Leðurjakkaveður
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 46
Verðlaun

Það er ekkert til
sem heitir berskjaldað skáld


þegar það klæðist ljóðmælandanum
eins og leðurjakka

segir í bókinni Leðurjakkaveður eftir Fríðu Ísberg (f. 1992). Bókin er þriðja skáldverkið eftir þennan athyglisverða höfund sem kvaddi sér eftirminnilega hljóðs með sinni fyrstu ljóðabók, Slitförunum, sem kom út fyrir tveimur árum. Með grípandi og meitluðum ljóðmælum tókst hún þar á við bernskuupplifanir og áhrifavalda uppeldisáranna í leit að sínum innsta kjarna. Ári síðar vakti hún enn eftirtekt þótt róin væri á önnur mið með sposkum og dirfskufullum smásögum í Kláða þar sem væntingar og kröfur samtímans hafa margvísleg áhrif á líf og hegðun sögupersóna.

Í þessari nýju bók er Fríða enn á persónulegum nótum líkt og í sinni fyrstu ljóðabók. Í forgrunni eru varnir og varnarleysi manneskjunnar – nektin undir fötunum, kvikan undir skrápnum, fegurðin, ástin, sorgin og tilfinningarnar í skjóli varnarhjúpa og hýðis af ýmsum toga. Leðurjakkinn er tilvalin brynja ef svo ber undir enda kemur hann við sögu. 

Undirliggjandi er þó ekki aðeins varnarleysi því að innsti kjarninn getur verið harður eins og avókadó- eða mangókjarni. Og stundum er hann einfaldlega eitthvað sem sogar allt til sín eins og svartholið ...

 

óseðjandi svarthol
sem þráir aðeins eitt

viðurkenningu þeirra
sem veita hana ekki. (38)

 

Ljóðabókin Leðurjakkaveður fjallar þó ekki eingöngu um varnir og brynjur heldur öðrum þræði um mörk og ramma. Gluggar húsanna „eru samtímis inni og úti“. Þessi mörk geta verið okkar eigin spegilhjúpur ...

eins og múr
utan um heimsveldi
eða gaddavír um bithaga

því að manneskjunni hættir til að spegla sig í skuggsjá eigin harma og sjálfsefa eins og við lesum til dæmis í ljóðinu Skuggsjá. Samspil hörku og mýktar kemur víða fram í ljóðum þessarar bókar og myndgerist til dæmis snilldarlega í ljóðinu SIGG ...

...

þegar manneskja þarf að herða sig
verður til sigg

mjúka G-ið verður tveggja G-a högg
og hörundið marglaga leður

fingurgómarnir eru sigggrónir
af því að án siggsins
gæti ég ekki spilað á gítarinn

...

Engum blöðum er um það að fletta að Fríða Ísberg er þrátt fyrir ungan aldur einn athyglisverðasti höfundur sem komið hefur fram á síðustu árum. Ljóð hennar eru í senn persónuleg, áleitin og grípandi. Þau spegla sig í sálarlífi lesandans og tala beint til hans, skýr og skiljanleg en um leið myndræn og rík af nýstárlegu táknsæi.

Niðurstaða

Vekjandi ljóðabók eftir áhugaverðan höfund.

Kjartan Valgarðsson