Gagnrýni / Brynhildur Björnsdóttir

Babb í Brókarenda

Brynhildur Björnsdóttir

Brynhildur skrifar í Fólk og sérblöð í Fréttablaðinu.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:

Bók til umfjöllunar

Titill Nærbuxnaverksmiðjan
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi

Ærslasögur hafa alltaf notið mikilla vinsælda hjá ungum lesendum og má nefna ýmis dæmi allt frá Grími grallara sem óknyttaðist á sjöunda áratugnum og til Skúla skelfis og Kafteins Ofurbrókar sem óþekktast þannig að heilu árgangarnir hristast af hlátri. Þá eru ógleymdar sögur David Walliams þar sem húmorinn er alltaf í fyrirrúmi.

Nærbuxnaverksmiðan sver sig að mörgu leyti í ætt við þessar sögur. Hún gerist í bænum Brókarenda þar sem nærbuxnaverksmiðjan hefur verið upphaf og endir alls um áratugaskeið. Göturnar í bænum eru nefndar í samhengi við hana og kallast Silkivegur, Bómullarbraut og Blúndustígur og einnig eru nokkur börn nefnd eftir stofnandanum Rasmusi. Nærbuxnaverksmiðjan var stóriðja: eitt sinn var öll heimsbyggðin í íslenskum nærbrókum, eins og segir í upphafi bókarinnar. En svo er ekki lengur og þegar Gutti, blíður, mjúkur og afskaplega meðvirkur strákur kemst að því að hjarta bæjarins, nærbuxnaverksmiðjunni sem amma hans hefur unnið í áratugum saman hefur verið lokað án fyrirvara veltir hann fyrir sér að grípa til sinna ráða. Með fulltingi óútreiknanlega hrekkjusvínsins Ólínu leggur hann af stað til að kanna innviði verksmiðjunnar sem hefur verið svo stór hluti af lífi bæjarbúa án þess að þeir veiti henni nokkra eftirtekt og kemst það að því að ekki er allt sem sýnist.

Nærbuxnaverksmiðjan er afskaplega skemmtilega skrifuð, full af orðaleikjum og hnitmiðuðum bröndurum en einnig er nokkrum álitamálum laumað með eins og aðbúnaði gamla fólksins á elliheimilunum, unglingum sem vilja ekki láta ná í sig í síma og hvað er hægt að gera í staðinn fyrir að byggja bara fleiri hótel.

Höfundurinn er hugmyndaríkur og fyndinn og fær lesendur á öllum aldri til að skella upp úr enda nær grínið í Nærbuxnaverksmiðjunni til allra aldurshópa. Sagan flæðir þægilega og léttleikandi og gerir lestrarupplifunina afskaplega ánægjulega. Sannarlega bók til að mæla með bæði fyrir lestrarhesta og þá sem ekki hafa fundið bókina sína ennþá. Þetta gæti alveg verið hún.

Niðurstaða

Nærbuxnaverksmiðjan er skemmtileg og fyndin saga um ráðsnjalla krakka, úreltar verksmiðjur og nærbuxur.

Brynhildur Björnsdóttir

Fleiri umsagnir gagnrýnanda