Gagnrýni / Ásgeir H Ingólfsson

Syndir mæðranna

Ásgeir H Ingólfsson

Ásgeir H er skáld, blaðamaður og bókmenntafræðingur og er búsettur í Prag í Tékklandi.

Um grein

Greinin birtist fyrst hér:
Sjá nánar hér

Bók til umfjöllunar

Titill Drottningin á Júpíter
Höfundur
Flokkur
Útgáfuár
Útgefandi
Blaðsíður 240

Münchausen-heilkenni kallast áráttukennd hneigð fólks til þess að gera sér upp veikindi. Ekki til að forðast vinnu eða neitt álíka, heldur af því sjúklingurinn hefur tekið ástfóstri við hlutverki sjúklingsins. Svo er tengt afbrigði af sjúkdómnum þar sem heilkenninu er þröngvað upp á aðra, oftast þannig að foreldrar sannfæra börnin sín um að þau séu veik.

Nú er ekki hægt að fullyrða neitt um að einhver persóna Drottningarinnar í Júpíter þjáist af akkúrat þessum kvilla, en einhvern veginn leitaði hugmyndin um þetta óvenjulega heilkenni ítrekað á mig við lesturinn. Eleanóra María Lísudóttir býr heima hjá Lísu mömmu sinni, sem glímir við alvarleg andleg veikindi og að virðist einhver líkamleg sömuleiðis. Við vitum svosem aldrei nákvæmlega hvað hrjáir hana – það er helst að það sé orðað þegar Nóra rifjar upp þegar Lísa yfirgaf heimabæinn Ísafjörð í fússi, sem „reið og brotin unglingsstelpa með ógreindan athyglisbrest og geðhvarfasýki“.

En hún er dugleg að hringja dóttur sína inn veika, til þess eins að hafa hana heima hjá sér. Það virðist vel að merkja ekki þurfa mikið til að sannfæra Nóru, hún kann félagsskap móður sinnar vel og þykir undurvænt um hana, það vænt að hún lætur alltaf eftir, jafnvel í þau skipti sem hana langar í skólann.

En móðir hennar dregur hana alla leið inn í sinn heim, heim skáldskapar og ímyndunar, heim þar sem mörkin þar á milli verða sífellt óskýrari. Þegar Lísa deyr fer dóttirin svo ítrekað að leika móðurina, gengur í fötum af henni og lætur fólk jafnvel kalla sig Lísu. Órar móðurinnar verða órar dótturinnar.

Þetta eru hins vegar bráðskemmtilegir órar – og stundum er þetta einfaldlega heilbrigt ofvirkt ímyndunarafl og skáldskapargleði, sem sannarlega einkennir bókina alla. En fljótlega áttar maður sig á að Nóra á erfitt með að fóta sig í lífinu út af einmitt þessu. Og þótt hún gangist upp í eigin skáldskap um sjálfa sig gerir hún sér líka ágætlega grein fyrir stöðu sinni, sem „drykkfelldur aumingi sem hafði fallið á samræmdu prófunum og ekki unnið almennilega vinnu síðan“ sem „var orðin lygasjúkari en mamma, að reyna að ljúga að sjálfri mér að ég væri stödd í einhverju öðru en þessu stefnulausa volæði.“

Júlía Margrét EinarsdóttirDrottningin á Júpíter er villt og kyngimögnuð skáldsaga.

Petra Pan, stelpan sem neitar að fullorðnast

Nóra er þversagnakennd persóna, barnaleg gömul sál, Petra Pan, ung að eilífu, en um leið föst í hlutverki móður sinnar að eilífu, enda var mamman besta vinkona hennar í bernskunni frekar en einhver jafnaldra hennar.

Örlög móðurinnar eru staðfest strax á fyrstu síðu: „Mamma dó úr depurð.“ En hún hverfur þó aldrei úr sögunni. Fyrsti hlutinn er raunar nefndur eftir henni – og þótt Nóra sé alltaf aðalpersónan eru bókarhlutarnir fimm alltaf kallaðir eftir einhverjum öðrum aðalpersónum, þeim persónum sem eru mest áberandi í þeim kafla – eða kannski öllu heldur, þeirri persónu sem á hug Nóru í það skiptið. Það er samt ekki alveg satt, mamman er eiginlega alltaf í fyrsta sæti í huga Nóru. En þessi uppbygging sýnir ágætlega hvernig Nóra leitar sífellt að staðgengli móður sinnar, hún er einfari sem er alin upp í tveggja manna einkaheimi, og reynir ítrekað, árangurslaust, að búa til annan slíkan heim.

Fyrst reynir hún það með Benedikt, fyrrverandi lækni móður hennar. Það gerist áratug síðar,  þegar bæði eru orðin fullorðin, og þótt það væri auðvelt að líta svo á að sambandið við Benedikt snúist um föðurímynd þá efast ég um það, Nóra hefur einfaldlega engan áhuga á að leita uppi föður sinn, sem hún veit ekkert um, enda kölluð eingetin í kerskni mömmunnar. Nei, hún er að leita að móður sinni í honum, en líka öruggri höfn, að reyna að flýja óstöðugleikann sem móðir hennar gaf henni. Hann er það sem mamma hennar varaði hana við:

„Það er nefnilega óþolinmóða fólkið, eins og þú, sem kemur af stað byltingunni. Þeir sem neita að sætta sig við hlutina og ryðja öllu áfram þvert á lögmálin, amma þín var líka svoleiðis. Svo byrjaði hún með apótekara, ferköntuðum aumingja og eyðilagði kraftinn innra með sér. Þú gerir ekki svoleiðis, manstu?“

En Nóra finnur að þetta er ekki hún, eitthvað sem næsti kærasti segir henni með orðunum: „Nei, þú ert klikkhaus, Nóra. Þú heldur að þú sért mamma þín, klæðir þig eins og hún, hagar þér eins og hún. Málar myndir af dýrum að dansa með innyflin lekandi út og semur ljóð um rottur. Fólk er skíthrætt við þig. En þú reyndir að leika smáborgaraleikinn.“

Næsti kærasti kemur líka úr fortíðinni, hann er gamall æskuvinur, Lilli Löwe, sem hún kynntist þegar hún fór að móður sinni genginni í skóla á Ísafirði, þar sem amma hennar og afi búa. Hún er utanveltu þangað til Lilli tekur hana upp á sína arma. „Hann var foringi vinahópsins, stofnandi leikfélagsins, verndari þeirra sem voru skildir útundan og hann lét minni krakkana sem áttu ekki vini fá stærstu hlutverkin.“

Svona birtist Lilli framan af sögu, sem verndarengill lítilmagnans, náttúrulegur töffari og hugsjónamaður, en fyrst og fremst sem ljúflingur. Undirtitill bókarinnar er svo sóttur til hans: „Absúrdleikhús Lilla Löve.“ Sem er þó mögulega ofrausn, þetta er miklu frekar absúrdleikhús Nóru. En allavega, hann hefur ástarsamband með Nóru og platar hana svo í sirkus, sem er lýst sem utangarðssamkomu.

„Í sirkúsnum hans Lilla voru allir jafnir, sama hvaðan við komum. Sumir höfðu flúið ofbeldissambönd, aðrir áttu glæpaferil að baki og voru eftirlýstir af yfirvöldum í fjarlægum löndum. Einhverjir höfðu framið peningaþvætti, aðrir lent á götunni í eiturlyfjaneyslu, sumir höfðu fylgt Lilla alveg frá því hann stofnaði leikhópinn í grunnskólanum. Þarna voru Tinna og Elli, gömlu bekkjarfélagarnir mínir, byrjuð að kasta keilum, hanga úr hlekkjum í loftinu og spúa eldi. Við vorum öll á skjön en nú vorum við saman á brúninni, kenndum hvert öðru klámbrandara, að spá í steinhnullunga og lesa skilaboðin sem voru skrifuð í skýin.“

Fljótlega kemur þó í ljós að Lilli er ekki sá engill sem virðist í byrjun. Hann er fyllilega meðvitaður um eigin gæsku og eigin mátt.

„Ég verndaði þig í gaggó. Þú varst borgarstelpa, móðurlaus rakki sem passaðir ekki inn í bekkinn. Þú varst aldrei töff, þvaðraðir um fugla og gekkst í flíspeysu af afa þínum eða senjorítukjólum í leikfimistíma. Það var ég sem gerði þig vinsæla.“

Seinna kemur í ljós að hann notar þessa hæfileika ekki alltaf á óeigingjarnan hátt, sem sirkusstjóri virðist blunda í honum versti harðstjóri.

Skáldskaparkrumminn á Bravó

Næstsíðasti kaflinn er svo nefndur eftir Mónu, sem kemur of seint til sögu til þess að við náum almennilega að átta okkur á því hvar við höfum hana – það er nefnilega innbyggt í söguna að maður áttar sig sjaldnast á persónunum og kostum þeirra og brestum fyrr en eftir dálítinn tíma. Síðasti kaflinn er svo nefndur eftir uppstoppaða hrafninum á barnum, Starkaði Krumma Sirkússyni. Eiginlega finnst manni það til marks um vonina um að Nóra finni sig, skáldskapurinn verði hennar raunverulega athvarf og hún muni ekki alltaf þurfa aðra til að máta sig við. Ímyndaði vinurinn gæti verið hennar lausn frá því að spegla sig alltaf í öðrum.

Hún spjallar reglulega við Krumma þegar hún kemur á Bravó, barinn sem er hin eiginlega þungamiðja sögunnar. Á meðan aðrir staðir koma og fara er Bravó alltaf þarna. Þangað koma Nóra og aðrir rónakettir og þar mætast öll helstu þemu sögunnar. Barinn er eins og sirkus, samfélag furðufugla sem fara svo hamförum þegar ákveðinni ölvun er náð, eða eftir að sirkusinn opnar.

Samband hennar við Krumma og opnunarhófin sem hún hefur haldið fyrir ljóðabækur á barnum kjarna svo ágætlega að þetta er sannarlega skáldsaga um skáldskapinn, sköpunarkraft hans sem og eyðingarmátt. Maður hugsar aðeins um ósjálfráð skrif þegar maður hugsar um Nóru, því það er eins og hún lifi lífi sínu samkvæmt sömu lögmálum, þetta er ósjálfrátt líf. Vanþakklát líf á köflum, eins og flest ungskáld þekkja:

„Enginn hafði heldur minnst á ljóðin mín síðan Kamilla Drekadóttir sagðist hafa fundið síðustu bók í ruslinu á Bravó í nóvember. Fullyrti að það hefði verið pissað á hana.“

Þetta er hins vegar bók sem á skilið veglegan sess á barborðinu, ekki henda henni í ruslið.

Niðurstaða

Kynngimögnuð, villt og óreiðukennd skáldsaga um skáldskapinn sjálfan, sköpunarkraft hans og eyðingarmátt. En líka um það sem tengir okkur og sundrar okkur. Og um sirkusinn, barinn og mömmu.

Ásgeir H Ingólfsson

Fleiri umsagnir gagnrýnanda